Fara í efni

Feðgar í sveinsprófi í vélvirkjun

Ellefu af tólf sem þreyttu sveinspróf um helgina.
Ellefu af tólf sem þreyttu sveinspróf um helgina.
Um liðna helgi var haldið sveinspróf í vélvirkjun í VMA. Í hópi þeirra tólf sem þreyttu prófið voru feðgar, faðirinn fæddur 1951 og sonurinn 1973. Þriðji ættliðurinn, fæddur 1997, stundar nú nám í VMA.

Um liðna helgi var haldið sveinspróf í vélvirkjun í VMA. Í hópi þeirra tólf sem þreyttu prófið  voru feðgar, faðirinn fæddur 1951 og sonurinn  1973. Þriðji ættliðurinn, fæddur 1997, stundar nú nám í VMA.

Sveinsprófið var annars vegar skriflegt og hins vegar verklegt, sem skiptist upp í smíðaverkefni, bilanaleit í díselvél, slitmælingu, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið.

Skriflegi hluti prófsins tók tvær klukkustundir og voru helstu þættir sem var spurt út úr vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suða og lóðningar og verkáætlanir auk almennra spurninga.

Í smíðaverkefninu var m.a. horft til hæfni og nákvæmni próftakans í  meðferð handverkfæra, mælitækja, lesturs teikninga og vélavinnu. Próftakar höfðu þrettán klukkustundir til þess að leysa þennan prófþátt.

Í bilanaleitinni hafði verið sett inn bilun í díselvél  og var próftökunum ætlað að finna hana, gera við og skrifa síðan stutta skýrslu.  Þennan prófþátt þurfti að leysa á klukkustund.

Prófað var í slitmælingu þar sem próftaka var gert að mæla ýmsa hluti í díselvél, meta hvort þeir væru í lagi eða hvort skipta þyrfti um þá og gera síðan stutta skýrslu. Í þennan prófhluta höfðu próftakar klukkstund.

Í suðuverkefni var prófað  í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einnig var prófað í logskurði. Til þess að leysa þennan prófþátt höfðu próftakar þrjár klukkustundir.

Við prófmatið er horft til vinnuhraða og var hann metinn út frá því að sá sem vann prófið á skemmstum  tíma fékk 10 og síðan koll af kolli.

Næst fara prófúrlausnir í mat og prófsýning verður síðan föstudaginn 25. október nk. kl. 16-18 í VMA.