Fara í efni

Farsælt samstarf framhaldsskólanna á Akureyri

Prjónað og heklað í tíma hjá Borghildi Ínu.
Prjónað og heklað í tíma hjá Borghildi Ínu.

Síðasta vetur voru nokkrir nemendur úr Verkmenntaskólanum á Akureyri í valáföngum í Menntaskólanum á Akureyri og að sama skapi sóttu nokkrir nemendur úr MA valáfanga í VMA.

Þetta samstarf framhaldsskólanna á Akureyri heldur áfram í vetur og núna á haustönn er 31 nemandi úr MA í nokkrum valáföngum í VMA. Enginn nemandi úr VMA er núna á haustönn í áföngum í MA en hins vegar kenna tveir kennarar úr Verkmenntaskólanum, Hilmar Friðjónsson og Katrín Harðardóttir, áfanga á haustönn í MA.

Samstarf skólanna um valáfanga lýtur að því að nemendur úr MA geta valið t.d. list- og viðskiptagreinaáfanga í VMA en nemendum VMA stendur á hinn bóginn til boða að taka fyrst og fremst raungreinaáfanga í MA. Þannig voru á liðnum vetri nokkrir nemendur úr VMA í eðlisfræði í MA.

Áfangarnir fimm sem MA-nemendurnir sækja í VMA núna á haustönn eru bókfærsla, prjón og hekl, markaðsfræði, stjórnun og fatasaumur.

Þessar myndir voru teknar í vikunni í tíma hjá Borghildi Ínu Sölvadóttur þegar hún var að leiðbeina nemendum úr bæði VMA og MA að prjóna og hekla.