Fara í efni

Fara í boði Oddfellowreglunnar vestur um haf

Úlfur Logason og Margrét Steinunn Benediktsdóttir.
Úlfur Logason og Margrét Steinunn Benediktsdóttir.

Margrét Steinunn Benediktsdóttir og Úlfur Logason, sem bæði stunda nám í VMA, hafa verið valin af sérstakri valnefnd á vegum Oddfellowreglunnar til þess að fara í boði reglunnar til Bandaríkjanna og Kanada næsta sumar þar sem þau munu meðal annars kynna sér starfsemi Sameinuðu þjóðanna í New York. Er boðsferðin hluti af verkefninu „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“ sem Oddfellowreglan um heim allan hefur til fjölda ára staðið fyrir.

Þetta verkefni hefur verið í gangi allar götur síðan árið 1949. Fyrstu árin var bandarískum ungmennum á síðasta ári í framhaldsskóla boðið í slíkar kynnisferðir en síðar náði verkefnið einnig til annarra landa þar sem Oddfellowreglan starfar, þar á meðað Íslands, og er þetta fjórða árið sem Ísland er með í verkefninu.  Markmiðið með „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“ er að fá ungt fólk til að kynna sér starfsemi Sameinuðu þjóðanna og  skapa grundvöll til skoðanaskipta um menntun, stjórnmál og alþjóðleg samskipti, bjóða þátttakendum að skoða merka staði í Bandaríkjunum og Kanada, hvetja til jákvæðrar þátttöku í félagsmálum og koma á vináttutengslum milli þátttakenda.

Val á þátttakendum hér á landi hefur verið með þeim hætti að einhver einn framhaldsskóli er valinn í hvert skipti og nemendum hans með góðan grunn í ensku boðin þátttaka. Að þessu sinni var VMA valinn til þátttöku og á haustönn spreyttu sig um 100 nemendur í áfanganum ENS 303 við að skrifa ritgerð um Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þeirra.  Níu bestu ritgerðirnar voru valdar og í byrjun þessa árs hitti síðan sérstök valnefnd á vegum Oddfellowreglunnar á Akureyri þessa níu ritgerðarhöfunda og ræddi við þá. Út frá þessum viðtölum var var niðurstaða valnefndar að bjóða Margréti Steinunni og Úlfi til fararinnar vestur dagana 11.-24. júlí nk.  og verður fararstjóri á vegum Oddfellowreglunnar með í för.

Fyrst liggur leið þeirra til Philadelphia í Pennsylvaníu og þaðan til New York. Farið verður í kynnisferð í byggingu Sameinuðu þjóðanna, söfn og merkir staðir heimsóttir og farið verður á söngleik á Broadway. Þátttakendur taka þátt í ræðukeppni, þar sem ræðulengd verður 3-5 mín, og verður fundarefnið kynnt þegar til Bandaríkjanna verður komið en nemendur þurfa að nýta sér þær upplýsingar sem fengnar eru úr kynnisferðum, fyrirlestrum og samræðum. Flug og uppihald verður þátttakendum að kostnaðarlausu, það eina sem þeir þurfa að hafa er vasapeningur.

Margrét Steinunn Benediktsdóttir er á félagsfræðabraut VMA sem kemur ekki á óvart því áhugasvið hennar tengist m.a. stjórnmálum. Nú þegar hefur hún ákveðið að fara í stjórnmálafræði að loknu stúdentsprófi frá VMA og hún horfir síðan í framhaldinu til meistaranáms í alþjóðasamskiptum. „Ég var að sjálfsögðu mjög ánægð þegar ég fékk tilkynningu um að ég hefði verið valin í þessa boðsferð,“ segir Margrét Steinunn. „Við komum m.a. til með að skoða höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, fara á Broadway, fara í Smithsonian og einnig munum við fara norður til Kanada. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt og fróðlegt. Ég hef aldrei farið til Ameríku og því verður þetta ný upplifinu fyrir mig,“ bætir hún við.

Úlfur Logason er á listnámsbraut VMA og hefur nú þegar vakið nokkra athygli fyrir listsköpun sína. Hann segir að námið í VMA standi fyllilega undir væntingum og það eigi eftir að nýtast sér vel í framtíðinni. Á einhverjum tímapunkti segist hann stefna að því að starfa sem myndlistarmaður. Úlfur segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart að vera boðið í þessa ferð á vegum Oddfellowreglunnar og hún verði án nokkurs vafa afar fróðleg og skemmtileg.