Fara í efni

Fantasíugreiðslukonan Dagný Anna

Dagný Anna með fantasíumódelið sitt.
Dagný Anna með fantasíumódelið sitt.

Dagný Anna Laufeyjardóttir frá Húsavík vissi strax í fimmta bekk grunnskóla hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. Og hún er að sjálfsögðu að leggja grunninn að því – með því að læra hársnyrtiiðn í VMA. Ekki fer á milli mála að Dagný Anna er á réttri hillu því hún tók þátt í keppni í svokallaðri fantasíugreiðslu á Íslandsmóti iðn- og verkgreina um síðustu helgi og lenti í öðru sæti af níu keppendum.

„Já, ég var ákveðin strax í grunnskóla hvað mig langaði að læra. Eftir grunnskólann á Húsavík fór ég í eitt ár í Framhaldsskólann á Húsavík en byrjaði í hársnyrtiiðn hér í VMA sl. haust og er því núna á annarri önn. Það má segja að hárgreiðsla hafi verið áhugamál mitt til fjölda ára – eiginlega alveg síðan mamma kenndi mér að flétta! Ég er klárlega á réttum stað í dag, ég gæti ekki verið ánægðari með námið, það uppfyllir allar mínar óskir og væntingar. Þessi iðngrein er fjölbreytt og áhugaverð og býður upp á marga möguleika. Það er sérstaklega gaman að gera eitthvað nýtt og öðruvísi, eins og t.d. í keppninni í fantasíugreiðslu á Íslandsmótinu um síðustu helgi. Ég undirbjó mig vel og fékk góð ráð frá kennurunum hér og mér leið ágætlega í sjálfri keppninni. Vissulega var þetta svolítið stressandi, ekki síst undir lokin þegar lítill tími var eftir. En þetta gekk bara ágætlega og það er gaman og hvetjandi að hafa náð öðru sæti í keppninni,“ segir Dagný Anna en hún var ein þriggja nemenda úr VMA í keppninni.

Nám í hársnyrtiiðn tekur sex annir og strax á þriðju önn – næsta haust - fá nemendur til hliðar við námið í skólanum - innsýn í starfið á hárgreiðslu- og rakarastofum. Dagný Anna segist hafa mikinn áhuga á því að fara erlendis þegar náminu í VMA lýkur og læra ennþá meira í faginu. Draumurinn sé að fá einhvern tímann tækifæri til að starfa í kvikmynda- og/eða leikhúsgeiranum.