Fara í efni

Hef fengið aukinn áhuga á kennslu

Anna Rut Jónsdóttir.
Anna Rut Jónsdóttir.

Þessa dagana er Anna Rut Jónsdóttir í vettvangsnámi í VMA sem felst í því að fylgjast með og vera til aðstoðar í sextíu kennslustundum og í framhaldinu mun hún annast kennslu í skólanum í tuttugu kennslustundir, fyrst og fremst í náttúrulæsi. Anna Rut stundar meistaranám í líftækni í Háskólanum á Akureyri undir handleiðslu Odds Vilhelmssonar og jafnframt tekur hún nám í HA til kennsluréttinda sem veitir henni réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi. Vettvangsnámið í VMA er hluti af uppeldis- og kennslufræðináminu í HA.

Anna Rut er Akureyringur í húð og hár, dóttir Jóns Hjaltasonar sagnfræðings og Lovísu Bjarkar Kristjánssonar grunnskólakennara. Hún lauk stúdentsprófi frá MA og síðan lá leiðin í viðskiptafræði í HÍ. Fljótt komst hún að raun um að þar var hún ekki á réttri hillu og færði sig yfir í lífefnafræði þaðan sem hún lauk BS-prófi. Áður en Anna Rut flutti norður aftur starfaði hún hjá Íslenskri erfðagreiningu. Maður hennar er Helgi Steinar Andrésson sjúkraþjálfari á Bjargi og eiga þau þrjú börn.

„Samhliða meistaranáminu ákvað ég að taka kennsluréttindin til þess að auka möguleika mína á vinnumarkaðnum hér á Akureyri, því hér vil ég helst vera. Ég get alveg hugsað mér að kenna. Reyndar var það svo að það hafði aldrei hvarflað að mér fyrr en Oddur leiðbeinandi minn í HA bað mig að taka að mér smá verklega kennslu í líftækni og það kom mér sannast sagna töluvert á óvart hvað mér fannst það skemmtilegt. Í framhaldinu ákvað ég að taka kennsluréttindin líka og það er sem sagt stefnan að ljúka bæði meistaranáminu og kennsluréttindunum í vor,“ segir Anna Rut.

Sem fyrr segir er hluti af kennsluréttindanáminu verklegur og Anna Rut brosir þegar hún rifjar upp að hún hafi strax nefnt sinn gamla skóla þegar hún var beðin að nefna þann skóla þar sem hún vildi kenna. En leiðbeinendur hennar í kennsluréttindanáminu í HA hafi þvert á móti sagt að einmitt vegna þess að hún þekkti MA vel væri kjörið að hún tæki sitt vettvangsnám í skóla sem hún þekkti ekki. „Og eftir á að hyggja er ég því alveg sammála. Það er mjög lærdómsríkt að koma hingað og sjá hversu fjölbreyttur þessi skóli er. Það sem af er hef ég fyrst og fremst fylgst með kennslunni og er Jóhannes Árnason minn leiðbeinandi hér. Ég hef verið með honum í tímum og fylgst með kennslunni en einnig hef ég kynnt mér kennslu í t.d. íslensku og einnig á verknámsbrautunum, t.d. í fatasaum og smíðum. Ég þarf að taka ákveðinn fjölda kennslustunda þar sem ég fylgist með kennslunni og einnig aðstoða ég í verklegum tímum. Í framhaldinu mun ég síðan, sem hluta af mínu vettvangsnámi, kenna í sem nemur tuttugu kennslustundum. Það verður lærdómsríkt og því fylgir tilhlökkun en um leið smá kvíði. En eftir því sem ég kynnist þessu betur fæ ég aukinn áhuga á kennslu,“ segir Anna Rut Jónsdóttir.