Fara í efni

Er félagsvera og hef áhuga á fólki

Felix Hrafn Stefánsson.
Felix Hrafn Stefánsson.

„Ég hef haft áhuga á myndlist frá því ég man eftir mér. Mér er minnisstætt þegar ég var á leikskólanum Tröllaborgum hér á Akureyri að mamma keyrði einhvern tímann framhjá VMA og sagði mér að í þessu húsi væri hægt að læra myndlist. Það fannst mér merkilegt og ég velti því fyrir mér hvort það gæti virkilega verið rétt að maður gæti verið í skóla að mála! Ég var í Glerárskóla allan grunnskólann og á þeim tíma tók ég einnig nokkra tíma í myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri. Það var síðan sjálfgefið að fara á listnáms- og hönnunarbraut VMA,“ segir Felix Hrafn Stefánsson, sem er núna að ljúka þriðja námsári og hyggst ljúka stúdentsprófi að ári liðnu. Þessa dagana er til sýnis í skólanum, á vegg mót austurinngangi skólans, myndverk eftir Felix Hrafn, unnið í myndlistaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2023.

Eins og um marga sem feta slóð myndlistarinnar í framhaldsskóla hefur Felix Hrafn áhuga á ýmiskonar annarri listsköpun, skrifar t.d. stuttar frásagnir og yrkir ljóð. Út frá eigin ljóði vann Felix myndverkið sem er núna til sýnis og kallast Ég er vökvi. Vatnið er grunnstefið í verkinu sem er á skemmtilegan hátt tvinnað saman úr textíl og akríl. Stóra spurningin sem Felix veltir fyrir sér í verkinu er hversu mikla stjórn mannskepnan hefur á lífi sínu.

„Mér líkar námið mjög vel. Aðstaðan er frábær og kennararnir líka. Þetta er fjölbreytt nám og við fáum að prófa marga ólíka hluti. Ég tel að skólinn búi nemendur mjög vel undir frekara listnám. Ég hef ekki ákveðið hvað ég geri eftir að náminu lýkur. Listnám kemur til greina og þá frekar erlendis því Reykjavík heillar mig ekki. En það er líka inni í myndinni að læra að verða kennari og kenna myndlist. Ég hef almennt mikinn áhuga á fólki og mennskunni og bæði heimspeki og mannskynssagan heilla mig. Ætli ég verði ekki að lýsa mér sem félagsveru. Ég hef verið fulltrúi í Ungmennaráði Akureyrar og starfa líka með skólanum sem æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju. Þar gefst mér tækifæri til að leiða starfið ásamt þremur öðrum. Að vinna með ungu fólki á vel við mig,“ segir Felix Hrafn en sumarstarfið verður einmitt frístundastarf hjá Akureyrarbæ.

Eins og algengt er í grunnskóla lék Felix í skólaleikritum en fyrstu sporin á leiksviði í VMA voru tekin í síðasta mánuði þegar Leikfélag VMA setti upp Dýrin í Hálsaskógi. Þar lék Felix Hrafn bakaradrenginn. „Það var virkilega gaman að prófa þetta. Vissulega heilmikið álag og törn en mikill lærdómur og reynsla. Auk þess að leika var ég líka í búningunum og gerð sviðsmyndarinnar. Þetta var mjög skemmtilegt í alla staði,“ segir Felix Hrafn Stefánsson.