Fara í efni

Aftur til Akureyrar eftir aldarfjórðungs fjarveru

Arnsteinn Ingi Jóhannesson kennari við VMA.
Arnsteinn Ingi Jóhannesson kennari við VMA.

Á liðnu sumri var Arnsteinn Ingi Jóhannesson starfsmaður Golfklúbbs Vestmannaeyja og hafði ráðið sig til íþróttakennslu við grunnskólann í Eyjum, þar sem hann og fjölskylda hans hefur búið til fjölda ára. En skjótt skipast veður í lofti og þegar leið á sumarið var ljóst að fjölskyldan myndi flytja til Akureyrar í kjölfar þess að eiginkona Arnsteins var skipuð í starf lögreglustjóra á Norðurlandi eystra. Arnsteinn, sem er menntaður grunnskólakennari, segist hafa látið vita af sér ef ske kynni að vantaði grunnskólakennara á Akureyri en málin tóku þá stefnu að stjórnendur VMA spurðu Arnstein hvort hann gæti hugsað sér að taka að sér afleysingakennslu í VMA, m.a. í íþróttum. Arnsteinn sló til og tók í framhaldinu að sér frekari kennslu i við VMA, mest á starfsbraut en einnig hefur Arnsteinn kennt fjármálalæsi á þessari önn.

Arnsteinn er kominn heim, ef svo má segja, því hann er fæddur og uppalinn í Þorpinu á Akureyri. Hann var á uppvaxtarárunum í Glerárskóla og varði flestum frístundum í boltaíþróttunum hjá Íþróttafélaginu Þór, valdi að lokum körfuboltann og spilaði í nokkur ár með meistaraflokki Þórs.

Tölvunarfræði – rekstrarfræði – grunnskólakennsla
Menntaskólanum á Akureyri lauk Arnsteinn vorið 1995 og eftir stúdentinn lá leiðin til Vestmannaeyja. Í MA hafði hann kynnst eiginkonu sinni, Páleyju Borgþórsdóttur, sem er fædd og uppalin í Eyjum, og saman fluttu þau þangað árið 1995. „Ég vann í fiski um sumarið og um haustið fórum við til Freiburg í Þýskalandi  í þýskunám sem undirbúning fyrir frekara háskólanám, sem við höfðum þó ekki ákveðið á þeim tíma hvað yrði. Þessu fornámi lukum við á nokkrum mánuðum en í stað þess að sækja um háskólanám í Þýskalandi ákváðum við að láta staðar numið og flytja aftur heim. Fórum á loðnuvertíð og söfnuðum peningum og um haustið fluttum við til Reykjavíkur þar sem Páley fór í lögfræði í Háskóla Íslands og ég í tölvunarfræði, sem þá var kennd í húsakynnum Verslunarskóla Íslands. Ég fann fljótt að tölvunarfræðin átti ekki við mig, ég hætti því í henni og fór um áramót í markaðstengda rekstrarfræði í Tækniskólanum. Jafnframt var ég með annan fótinn út í Eyjum þar sem ég tók afleysingar til sjós og spilaði körfubolta með Eyjamönnum. Ég lauk fyrrihluta námsins í Tækniskólanum en ákvað  að láta staðar numið því ég var ekki alveg sannfærður um að ég hefði áhuga á að leggja markaðsfræði alfarið fyrir mig. Ég sá þó tækifæri í því að nýta mér þekkinguna sem ég hafði aflað mér í rekstrarfræðinni og sótti um og fékk starf hjá markaðsdeild Íslandspósts í Reykjavík. Þar starfaði ég þar til Páley lauk lögfræðináminu í HÍ. Þá langaði okkur að flytja frá Reykjavík og Akureyri var sterklega inni í myndinni. Ég hefði getað unnið áfram fyrir Íslandspóst á Akureyri en Páley fékk hins vegar ekki starf hér á þeim tíma og því varð ekkert úr flutningum norður. Þá fluttum við aftur til Eyja, þar sem Páley fékk áhugaverða vinnu. Ég sagði starfi mínu hjá Íslandspósti lausu og bauðst kennsla í grunnskólanum í Eyjum. Þar fann ég mína hillu og kenndi í sex ár ásamt því að klára B.Ed í grunnskólakennarafræðum í fjarnámi frá Kennaraháskólanum.“

Forstöðumaður íþróttamannvirkja – starfsmannastjóri
Að grunnskólakennslu lokinni var Arnsteinn ráðinn í afleysingastöðu forstöðumanns íþróttamannvirkja Vestmannaeyjabæjar. Hann hafði m.a. kennt íþróttir í grunnskólanum og brennandi áhuginn á íþróttum var til staðar, auk þess sem Arnsteinn sá tækifæri til þess að nýta sér rekstrarfræðikunnáttuna úr náminu í Tækniskólanum. „Ég hafði starfað mikið í kringum körfuboltann í Eyjum, var m.a. formaður deildarinnar og þjálfari meistaraflokks og yngri flokka og því þekkti ég nokkuð vel til íþróttastarfsins, auk þess sem ég hafði komið að þjálfun í fótboltanum og golfi. Starf forstöðumanns íþróttamannvirkja var síðan auglýst eftir afleysingaárið, ég sótti um og fékk starfið og gegndi því í átta ár. Þá ákvað ég að breyta til og var ráðinn starfsmannastjóri Vestmannaeyjabæjar. Gegndi því starfi í tæp fjögur ár, þar til í apríl á þessu ári.“

Páley, eiginkona Arnsteins, starfaði sem fulltrúi sýslumanns í Eyjum í nokkur ár, hún var einnig í lögmennsku í nokkur ár en hefur verið lögreglustjóri í Eyjum síðustu fimm ár. Um lögreglustjórastarfið á Norðurlandi eystra sótti hún fyrr á þessu ári og var skipuð í það í júlí sl.

Aftur í kennslu – í VMA
„Ég lýg engu til um það að Akureyri var farin að toga í mig, eftir aldarfjórðungs fjarveru. Hér búa foreldrar mínir og tvö af þremur systkinum mínum með sínum fjölskyldum. Einnig búa hér nokkrir æskuvinir mínir, sem ég hef haldið góðu sambandi við. Þegar Páley fékk stöðu lögreglustjóra á Norðurlandi eystra var ekki aftur snúið. Fyrirvarinn var skammur og við fluttum til Akureyrar með ferðatöskurnar en ekkert meira og bjuggum til að byrja með hjá foreldrum mínum. Fórum siðan að horfa í kringum okkar með fasteign og festum okkur húsnæði í september sl., þar sem við höfum verið að koma okkur fyrir á síðustu vikum. Eldri dóttir okkar hafði alltaf ætlað í Menntaskólann á Akureyri, óháð því hvort við flyttum til Akureyrar, og hún er þar á fyrsta ári. Yngri dóttir okkar er í Glerárskóla en tvítugur sonur okkar er enn úti í Vestmannaeyjum.“

Arnsteinn segir að sér líði vel með að vera kominn á heimaslóðir á ný og hann neitar því ekki að ákveðin tilhlökkun sé að horfa til norðlenska vetrarins með snjó, eins og hann ólst upp við. Síðasti veturinn sem Arnsteinn upplifði á Akureyri var einn sá snjóþyngsti á Akureyri á þessari öld, veturinn 1994-1995. „Auðvitað eru allar aðstæður afar sérstakar núna vegna kórónuveirunnar og mannlífið ekki í eðlilegum skorðum. En vonandi verður breyting á því með tíð og tíma.“

Sem fyrr segir var það tilviljunum háð að Arnsteinn fór að kenna við VMA. „Ég kann afar vel við mig í kennslu hér í VMA. Mér finnst þetta frábær vinnustaður. Vissulega er skólalífið með öðrum hætti en það ætti að vera við eðlilegar aðstæður en engu að síður náði ég að kynnast því á fyrstu vikunum í haust hversu góður starfsandinn er hér hjá bæði starfsfólki og nemendum,“ sagði Arnsteinn.