Fara í efni

Gera sitt besta við breyttar aðstæður

Grunndeildarnemandi í verklegri kennslustund.
Grunndeildarnemandi í verklegri kennslustund.

„Þegar við hófum kennslu hér sl. haust þurftum við auðvitað að hugsa hlutina upp á nýtt með tilliti til sóttvarna. Það lá ekki í augum uppi hvernig best væri að gera þetta en niðurstaðan var sú að skipta nánast öllum hópum upp í tvo minni hópa og því fá nemendur helmingi færri verklega tíma heldur en væri í eðlilegu ári. Á móti kemur að vegna þess að hóparnir eru minni getum við kennararnir sinnt hverjum og einum nemanda betur,“ segir Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingagreina í VMA.

„Mér finnst þetta fyrirkomulag ganga nokkuð vel en þó er ljóst að vegna þessara takmarkana komumst við ekki yfir allt það sem við myndum gera við eðlilegar aðstæður. Mér finnst mikilvægt að halda sama skipulagi sem mest, tíðar breytingar rugla nemendur í ríminu,“ segir Helgi Valur.

Hann segir að lögð hafi verið áhersla á að nýnemarnir væru sem mest í staðnámi, þeir væru í verklegum áföngum og fagbóklegum áföngum í byggingadeildinni í staðnámi. Eldri nemendur væru hins vegar að hluta til í dreifnámi.

„Mér finnst nemendur hafa lagað sig ágætlega að þessum breyttum aðstæðum og átta sig almennt á því að vegna þess að verklegu tímarnir eru færri en áður sé mikilvægt að nýta hverja kennslustund mjög vel,“ segir Helgi Valur.

Hann segist vita að nemendum gangi misjafnlega vel að takast á við aukið dreifnám, sumum reyntist það erfitt. „Nemendum gengur misjafnlega vel að vinna verkefni rafrænt og við sýnum því fullan skilning og komum til móts við þá,“ segir Helgi Valur og bætir við að nemendur á öðru ári sæki annan hvern fagbóklegan tíma í skólann á móti dreifnámi.