Fara í efni

Útskriftarnemar í húsasmíði í verklegum tímum

Ketill Sigurðarson kennari gefur nemanda góð ráð.
Ketill Sigurðarson kennari gefur nemanda góð ráð.

Frá því sl. mánudag hafa fimmtán útskriftarnemar í húsasmíði verið í verklegri kennslu í húsnæði byggingadeildar. Nemendur vinna að smíðaverkefnum sínum undir handleiðslu Helga Vals Harðarsonar brautarstjóra og kennara og Ketils Sigurðarsonar kennara frá kl. átta á morgnana til fjögur á daginn. Helgi Valur segir að áætlanir miðist við að þessi námslota verði í átta daga, átta tíma á dag, og nýtist tíminn mjög vel með þessu móti, nemendur nái að komast yfir margra vikna námsefni sem þeir hefðu ella tekið í tímum í daglegri stundaskrá.

Bæði eru nemendur að ljúka við smíðaverkefni sem þeir voru byrjaðir á þegar samkomubann skall á 16. mars sl. og einnig vinna þeir að nýjum verkefnum. Þessari markvissu verklegu þjálfun er ætlað að búa nemendur sem best undir að fara í sveinspróf í húsasmíði sem er gert ráð fyrir að verði í húsnæði byggingadeildar VMA snemma í júní nk.

Til þess að virða tveggja metra fjarlægðarregluna hafa hefilbekkir verið fluttir til í húsnæði byggingadeildar og útbúið annað vinnusvæði. Nemendur vinna því í tveimur aðalrýmum og vélasalnum, sem er á milli vinnurýmanna, hefur einnig skipt í tvö svæði.