Fara í efni

Húsasmiðjan gefur byggingadeild lagnaefni og verkfæri

Ágúst Berg Arnarsson með Helga Val og Braga.
Ágúst Berg Arnarsson með Helga Val og Braga.

Á dögunum kom Ágúst Berg Arnarsson, sölustjóri lagnaverslunar hjá Húsasmiðjunni, í heimsókn í byggingadeild skólans og færði henni að gjöf nýja útfærslu af álpexi til pípulagna, sem Húsasmiðjan hefur nýverið sett á markað, og verkfæri til þess að vinna með álpexið.

Pípulagnir eru kenndar í byggingadeild. Fyrsta önnin er sameiginlegur grunnur fyrir allar byggingargreinar og eru nemendur þá í bæði kjarna- og iðnnámsgreinum. Fyrir aðra önn velja nemendur námsbraut til áframhaldandi náms, þar á meðal hafa pípulagnir verið í boði þegar nægilega margar umsóknir hafa borist. Síðastliðið vor voru nokkrir pípulagningamenn útskrifaðir frá skólanum og tóku þeir jafnframt í sveinspróf. 

Ágúst Berg Arnarsson segir að það sé Húsasmiðjunni ánægjulegt að geta orðið byggingadeild VMA að liði með því að færa henni umrætt álpexefni og verkfæri. Um sé að ræða nýja útgáfu af álpexi frá belgíska framleiðandanum Henco, sem er frábrugðin eldra efni að því leyti að álið sé helmingi þykkra og límið sem er á milli állagsins og plastlagsins utan um sé mun öflugra en í eldri útgáfunni. Að þessu samanlögðu sé þessi nýja útfærsla af rörum mun sterkari en sú eldri. Með rörarúllunni fylgdu verkfæri til þess að vinna með pexið – beygjutöng, kjaftur og lyklar.

Á þessum myndum er Ágúst Berg með Helga Val Harðarsyni, brautarstjóra byggingadeildar VMA, og Braga Óskarssyni, kennara við deildina. Einnig má sjá þau verkfæri sem Húsasmiðjan gaf byggingadeild.

Helgi Valur Harðarson segir að það sé nemendum mikilvægt að vinna í námi sínu í VMA með það nýjasta á markaðnum í vélbúnaði og efnum. Ánægjulegt sé að atvinnulífið styðji við verknámsbrautir skólans með því meðal annars að láta þeim í té búnað og tæki sem sé nauðsynlegt að hafa yfir að ráða í kennslunni til þess að nemendur læri vinna með þau strax í námi sínu.