Fara í efni

Sveinsbréf afhent

Elías afhenti lærisveinum sínum sveinsbréfin.
Elías afhenti lærisveinum sínum sveinsbréfin.

Á hverju hausti er árvisst á Akureyri að sveinar í hinum ýmsu iðngreinum fái afhent sveinsbréf sín til staðfestingar á að þeir hafi lokið sveinsprófum og fengið fullgild starfsréttindi. Síðastliðinn laugardag var þessi árvissa athöfn í Alþýðuhúsinu á Akureyri og voru rétt um fimmtíu sveinsbréf til afhendingar. Drjúgur hluti þeirra sem fengu afhent sín sveinsbréf luku námi í sínum iðngreinum í VMA.

Sveinsbréfin sem að þessu sinni voru til afhendingar skiptust þannig á iðngreinar: 22 húsasmiðir, 15 pípulagningamenn, 6 bifvélavirkjar, 3 blikksmiðir og 3 stálsmiðir.

Sveinspróf eru haldin tvisvar á ári, í desember og janúar og júní. Á höfuðborgarsvæðinu eru sveinsbréf afhent tvisvar á ári en á Akureyri er það gert einu sinni á ári. Trésmiðafélag Akureyrar hafði lengi vel umsjón með þessari athöfn á Akureyri og síðar Byggiðn. Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri kom einnig að framkvæmdinni í ár. Í Reykjavík sér Iðan fræðslusetur um afhendingu sveinsbréfa en áðurnefnd félög gera það hér norðan heiða fyrir hönd Iðunnar. Iðan færir öllum þeim sem fá sveinsbréf afhent að gjöf námskeið að eigin vali á vegum Iðunnar. Þeir sem fengu afhent sveinsbréf sl. laugardag fengu einnig gjafir frá sínum fagfélögum.

Sem fyrr segir fékk stór hópur húsasmiða afhent sín sveinsbréf en stór hluti þeirra nam húsasmíði annars vegar í VMA og hins vegar í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Og ekki síður var ánægjulegt að sjá svo stóran hóp pípulagningamanna fá afhent sveinsbréf sín. Flestir luku námi í pípulögnum sl. vor í VMA og fóru síðan í sveinspróf. Elías Örn Óskarsson hafði umsjón með náminu og hann afhenti pípulagningasveinunum sveinsbréfin í Alþýðuhúsinu. Elías segir ánægjulegt að eftir áramót verði aftur farið af stað með nýjan hóp nemenda í pípulögnum. Þeir eru núna á fyrstu önninni í grunndeild byggingagreina og síðan velja nemendur námsleið á annarri önn. Um tugur nemenda hyggst hefja nám í pípulögnum.