Fara í efni

Vel heppnuð vettvangsferð byggingadeildar í Skagafjörð

Hópurinn heimsótti m.a. Steinullarverksmiðjuna.
Hópurinn heimsótti m.a. Steinullarverksmiðjuna.

Fjórtán nemendur og fimm kennarar byggingadeildar VMA fóru í vettvangsferð vestur í Skagafjörð sl. mánudag og tókst hún í alla staði mjög vel.

Frá Akureyri var farið rakleiðis vestur í Hóla í Hjaltadal þar sem Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, tók á móti hópnum. Hóladómkirkja var að sjálfsögðu skoðuð, en bygging hennar var hreint afrek á sínum tíma. Yfirumsjón með byggingu kirkjunnar hafði þýski steinsmiðurinn Johan Christop Sabinsky og var hún reist á árunum 1757-1763 og vígð í nóvember 1763. Án nokkurs vafa er Hóladómkirkja ein af merkari steinhúsum á Íslandi.

Einnig var gamli bærinn á Hólum skoðaður og sömuleiðis Auðunarstofa en fyrr á öldum stóð á hús á Hólum sem nefnt var Auðunarstofa eftir Auðuni rauða sem var Hólabiskup 1313-1322. Auðun var norskur og lét reisa hús að norskri fyrirmynd í biskupstíð sinni, líklega um 1317. Húsið stóð í tæpar fimm aldir eða allt til ársins 1810. Auðunarstofa, sú er nú stendur á Hólum í Hjaltadal er tilgátuhús, reist árið 2001. Húsið er gert með þrennskonar byggingarlagi; stokkverki, stafverki og steinhleðslu. Stuðst var við ritaðar heimildir um hina fornu stofu og rannsóknir á svipuðum húsum sem enn standa í Noregi og Færeyjum.

Auðunarstofa hin forna var í senn heimili og vinnustaður Hólabiskupa. Í Auðunarstofu hinni nýju er til húsa skrifstofu vígslubiskups og aðstaða fræðimanna á vegum Guðbrandsstofnunar. Salur eða hin eiginlega stofa hentar vel til tónlistarflutnings og fundahalda. Þar er sýning á verkfærunum sem notuð voru við smíði stofunnar, og margmiðlunarbúnaður fyrir fornbókasafnið sem geymt er í kjallara hússins. Auk þess er í kjallara ýmsir merkir gripir dómkirkjunnar.

Að loknum fróðlegum fræðsluerindum Erlu Bjarkar rektors var snæddur ljúffengur hádegisverður í mötuneyti Hólaskóla og að honum loknum var haldið til Sauðárkróks og fyrst farið í heimsókn í Fjölbrautaskóla Norðulands vestra þar sem Atli M. Óskarsson, brautarstjóri byggingadeildar, tók á móti hópnum og sagði frá og sýndi starfsemi deildarinnar. Meðal annars var kíkt á bindingsverkshús frá Langanesi sem deildin er nú að vinna að endurbótum á í samstarfi við Minjastofnun.

Frá skólanum lá leið hópsins í Steinullarverksmiðjuna þar sem hún var skoðuð og veittar fróðlegar upplýsingar um starfsemina.

Loks var farið í heimsókn í gamla barnaskólann á Sauðárkróki sem hefur lokið sínu hlutverki sem skólahúsnæði og er nú er verið að breyta húsinu í íbúðir. Áhugavert var að sjá hvernig þetta er allt saman unnið.

Ferðin tókst hið besta og vilja nemendur og kennarar byggingadeildar færa öllum þeim sem tóku á móti hópnum á Hólum og Sauðárkróki hinar albestu þakkir fyrir góðar móttökur.