Fara í efni

Enn og aftur upp á leiksviðið

Pétur leikstjóri og Freysteinn leikari.
Pétur leikstjóri og Freysteinn leikari.

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, hefur alltaf mörg járn í eldinum. Nú sem endranær. Hann segist ekki geta neitað því að hann sé með ólæknandi leiklistarbakteríu og nýjasta verkefnið hans er einmitt í þeim geiranum. Draumaleikhúsið, félag sem Pétur setti á stofn sl. sumar, mun þann 1. mars nk. frumsýna gamanleikinn Fullkomið brúðkaup í Hömrum, minni salnum í Hofi. Fólki býðst að sitja til borðs og njóta veitinga á meðan á sýningunni stendur.

Pétur rifjar upp að síðastliðið sumar hafi hann sett upp sýninguna Gutta og Selmu og utan um hana hafi hann stofnað Draumaleikhúsið. „Það hafði áhrif að ég ásamt fleira góðu fólki höfum unnið að gerð stuttmyndarinnar Hvar er draumurinn? sem hefur tafist í framleiðslu vegna þess að allir eru að gera eitthvað annað. Þar kemur ákveðin tenging við nafn leikhússins. Síðan verða til töfrar og draumar í leikhúsinu,“ segir Pétur en með honum vinna að þessu nýjasta leiklistarverkefni ýmsir sem hann hefur lengi unnið með, t.d. Jokka G. Birnudóttir og Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtiiðn í VMA. Fleiri sem tengjast VMA koma vissulega við sögu í Fullkomnu brúðkaupi. Kristján Blær Sigurðsson er framkvæmdastjóri sýningarinnar, en hann var formaður Þórdunu og vann því náið með Pétri. Hrafnhildur Sunna Eyþórsdóttir leggur sín lóð á vogarskálarnar í förðun í sýningunni, Freysteinn Sverrisson fer með eitt hlutverkið í sýningunni en hann túlkaði eftirminnilega Samma feita í Bugsý Malón í uppfærslu Leikfélags VMA. Sýningum á verkinu lauk um liðna helgi og því fer Freysteinn úr einni leikuppfærslunni í aðra. Hilmar Friðjónsson kennari leggur einnig Pétri lið við sýninguna, sömuleiðis Sindri Snær Konráðsson Thorsen og svo mætti áfram telja. „Ég hef mikil tengsl við þann auð sem VMA hefur að geyma,“ segir Pétur.

Þessi vinsæli gamanleikur, Fullkomið brúðkaup, sló í gegn hjá Leikfélagi Akureyrar fyrir rúmum áratug og setti aðsóknarmet hjá félaginu. Leikverkið gerist á hóteli á brúðkaupsdaginn hjá Rakel og Bjarna og eins og gengur og gerist í försum fer eitt og annað úrskeiðis. Auk Freysteins Sverrissonar eru leikarar í sýningunni Bernharð Arnarsson, Inga María Ellertsdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Símon Birgir Stefánsson og Sjöfn Snorradóttir. Hér má sjá leikhópinn með leikstjóra og öðru lykilfólki við uppsetninguna.

Pétur segir ekkert launungarmál að hann sé með leiklistarbakteríu á háu stigi. „Þó svo að ég hafi byrjað unglingur að skrifa ljóð og drög að leikritum tvítugur þá fór allt af stað á leiklistarnámskeiði árið 2005 sem LA stóð fyrir. Þá var ég 34 ára. Síðan lék ég í tveimur verkum hjá Freyvangsleikhúsinu 2008-2011 og var auk þess kynningarstjóri. Mér fannst ég alltaf lélegur leikari en handritsskrif og leikstjórn átti strax vel við mig. Ég tók fjögur námskeið í leikstjórn hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga og er nú í Listaháskólanum að læra leikstjórn með ungu fólki. Það er vettvangur sem mér finnst ég bestur í. En auk þess hef ég fengið styrk frá menningarsjóði Eyþings til þess að skrifa nýjan barnasöngleik um Gutta og Selmu. Þarna finnst mér ég vera á heimavelli,“ segir Pétur en hann hefur þegar leikstýrt tveimur stórum uppfærslum hjá Leikfélagi VMA, Bjart með köflum, sem var sýnt í Freyvangi, og Ávaxtakörfunni sl. vetur í Hofi. Síðasta leikuppfærsla sem Pétur stýrði var söngleikurinn Grease í uppfærslu nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

En af hverju Fullkomið brúðkaup í Hofi? „Ég er með þá áráttuhegðun gagnvart sjálfum mér að ögra mér sífellt. Mig langar að Draumaleikhúsið sé á breiðum grunni og þess vegna stökk ég í þetta. Hin skýringin er sú að það er enginn að setja upp farsa hér á svæðinu í ár. Fullkomið brúðkaup verður sett upp í Hömrum, sem er minni salurinn í Hofi, og það verður setið til borðs. Við erum í raun að búa til partýstemningu þar sem fólk kemur og skemmtir sér. Verkið er sannarlega til þess fallið að hlæja að því,“ segir Pétur og bætir við að æfingar gangi prýðilega. „Ef eitthvað er að trufla okkur í æfingunum, þá er það hláturinn í leikhópnum. Ég er með mjög reynda leikara sem eru mjög meðvitaðir um hvað þarf að gera til þess að vera með vel heppnaða uppsetningu svo þetta hefur gengið vel. Vissulega er kominn fiðringur í mannskapinn sem mætti kalla stress sem á að vera því þegar það hættir að koma er tímabært að snúa sér að öðru en leiklist.“

Pétur segist vera bjartsýnn á þetta verkefni. „Já ég er bjartsýnn. Við erum aðeins með bókaða fimm sýningardaga og áður en við fórum af stað með miðasölu var búið að selja 200 miða í forsölu. En núna er miðasalan komin í fullan gang. Við fáum líka mikil og jákvæð viðbrögð að bjóða upp á kaffileikhús þar sem er setið til borðs. Við þurfum að standa okkur og setja hjartað í verkefnið. Það ætlum við að gera,“ segir Pétur Guðjónsson.