Fara í efni

Listin að skapa

Indriði Atli Þórðarson við saumavélina.
Indriði Atli Þórðarson við saumavélina.

„Það er í mínum huga engin spurning, mér finnst ég vera á réttri hillu í þessu námi," segir Agnar Forberg, nemandi á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Hann hóf nám sl. haust og kom þá beint úr tíunda bekk Naustaskóla á Akureyri. Þegar við litum við var Agnar og samnemendur hans í kennslustund í fatasaumi hjá Sólveigu Þóru Jónsdóttur, kennara og brautarstjóra textílgreina, og var verkefni dagsins að sníða og sauma.  

Agnar segist hafa ákveðið fyrir um tveimur árum að fara þessa leið í námi og hann sjái ekki eftir því, það sem af er hafi námið uppfyllt hans væntingar og vel það. Á haustönn, fyrstu önninni, voru áfangar í bæði myndlist og textíl en á þessari önn eru þeir nemendur sem velja textíllínuna meira í textíltengdum áföngum. Agnar sagðist hafa tekið valáfanga í fatasaumi í Naustaskóla og fundið að fatahönnun ætti vel við hann. Því hafi ekki verið erfitt að ákveða námsbrautina í framhaldsskóla. „Það er þessi list að skapa sem mér finnst vera svo eftirsóknarverð,“ segir Agnar.

Í þessum skylduáfanga á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar er farið í grunnatriðin í fatasaumi, bæði að sníða og sauma. Í framhaldsáfanga er byggt ofan á þá kunnáttu sem nemendur tileinka sér í þessum grunnáfanga. 

Átta nemendur eru í áfanganum, þar af þrír strákar. Sólveig segir þetta í senn ánægjulegt og óvenjulegt, hún minnist þess ekki að áður hafi verið þrír strákar í áfanga í fatasaumi.

Indriði Atli Þórðarson er sömuleiðis Akureyringur, að loknum Oddeyrarskóla tók hann fyrst grunndeild matvælabrautar í VMA veturinn 2016-2017. Fór síðan á fjölgreinabraut VMA og hafði þar kynni af fatasaumi sem heillaði Indriða og hann ákvað í kjölfarið að fara í textílnám á listnáms- og hönnunarbraut. „Ég hef lengi haft áhuga á þessu og mér líst vel á þetta, það er alltaf gaman að fá hugmyndir og framkvæma þær,“ segir Indriði Atli.