Fara í efni

Gleðidagur í byggingadeild

Í fullum skrúða í byggingadeild VMA í gær.
Í fullum skrúða í byggingadeild VMA í gær.

Það var mikill gleðidagur í byggingadeild VMA í gær þegar nemendur og kennarar fengu afhentan digran fatapakka og verkfæri og einnig fékk byggingadeild að gjöf verkfæri. Fulltrúar Byko á Akureyri, Haukur Már Hergeirsson verslunarstjóri og Ómar Árnason aðstoðarverslunarstjóri, og Þórhallur Matthíasson, fulltrúi fyrirtækisins Haga ehf í Reykjavík, komu færandi hendi. Boðið var upp á tertu og kleinur í tilefni dagsins, enda ástæða til.

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingagreina, segir að unnið hafi verið að þessu verkefni frá því í haust. Upphafið hafi verið það að leitað var tilboða í öryggisskó. Í kjölfarið hafi komist á samtöl við talsmenn Byko og Haga sem hafi lyktað með því að fyrirtækin hafi ákveðið að leggja því afar myndarlega lið að allir nemendur á fyrsta og öðru ári í byggingadeild VMA og kennarar deildarinnar gætu fengið persónuhlífar og alklæðnað á afar vægu verði.

Verkmenntaskólinn kemur einnig fjárhagslega að málinu og hver nemandi greiðir hálft sextánda þúsund fyrir þann „pakka“ sem var afhentur í gær. Í honum var hjálmur, öryggisgleraugu, heyrnahlífar, bolur, jakki, smíðabuxur, smíðavesti og öryggisskór. Einnig fengu allir að gjöf sög, vinnuvettlinga og hníf.

Þórhallur Matthíasson frá Haga segir að um sé að ræða sambærilegan pakka og nemendur byggingadeilda Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hafi áður fengið. Hann segir að Hagi og Byko hafi undanfarin ár haft með sér náið samstarf, m.a. á þann veg að Byko selji vinnufatnað frá sænska framleiðandanum Snickers sem Hagi flytji inn. Fatnaðurinn sem VMA-nemendur fengu í gær var einmitt frá Snickers. Þórhallur og Haukur Már Hergeirsson, verslunarstjóri Byko á Akureyri, segja báðir afar ánægjulegt að geta lagt námi í byggingadeildinni lið með þessum hætti. Þetta sé stærsti samstarfssamningur af þessum toga sem fyrirtækin hafi komið að, um sé að ræða vinnufatnað og persónuhlífar fyrir samtals um 50 manns, bæði nemendur og kennara.

Listaverð pakkans er um 118 þúsund krónur en nemendur greiða 15.500 krónur fyrir hann, sem svarar til verðs á öryggisskóm sem gerð er krafa um að nemendur gangi í.

Helgi Valur segir að mikil áhersla sé lögð á öryggismál í námi í byggingadeild, enda sé oft unnið við vélar sem geti verið varasamar, sé ekki fyllstu varúðar gætt og almennt geti vinnuumhverfi starfsmanna í byggingagreinum verið varhugavert. Því sé þess krafist að nemendur noti viðeigandi persónuhlífar við vinnu á verkstæði, við vinnu við byggingu sumarbústaðariuns í portinu norðan skólahússins og einnig þegar nemendur fari í heimsóknir á vinnusvæði í ferðum á vegum skólans.

Auk fata- og öryggispakkanna sem voru afhentir í gær færði Byko byggingadeild VMA að gjöf ýmis verkfæri sem deildina vantaði. Helgi Valur segir ómetanlegt fyrir skólann að njóta stuðnings atvinnulífsins með þessum hætti.

Þess ber einnig að geta að nemendur byggingadeildar VMA njóta ríflegs afsláttar af handverkfærum, Bosch rafmagnsverkfærum og Snickers fatnaði til loka þessarar annar.

Hagi ehf. er rótgróið fyrirtæki í innflutningi og sölu á verkfærum og vinnufatnaði. Eitt þekktasta merki fyrirtækisins frá upphafi er án efa Hilti sem hefur á boðstólum rafmagnsverkfæri af ýmsum toga.

Á meðfylgjandi mynd eru nemendur 1. og 2. árs byggingadeildar VMA og kennarar deildarinnar í fullum skrúða, auk fulltrúa Byko og Haga.