Fara í efni

Stefnir á arkitektúr

Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir.
Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir.

Náttúruunnandi að ljúka námi af myndlistarlínu listnámsbrautar, með myndlistargen í blóðinu, hefur lengi haft áhuga á arkitektúr og stefnir á slíkt nám í framhaldinu af útskrift frá VMA.

Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir er frá Svæði, skammt norðan Dalvíkur. Hún fór á listnámsbraut VMA vegna þess að hún hafði lengi haft ánægju af því að teikna og hún vildi fá góðan grunn í framhaldsskóla til þess að fara áfram í arkitektúr, sem hún segist hafa haft áhuga á frá því að hún var í grunnskóla. “Ég taldi að listnámsbrautin væri góður grunnur fyrir arkitektúr og ég komst fljótt að raun um að það var rétt metið hjá mér. Þetta er mjög fjölbreytt nám og að mínu mati góður grunnur fyrir arkitektúr og í raun allt nám. Ég sé síður en svo eftir því að hafa farið þessa leið í framhaldsskóla. Skapandi hugsun nýtist alls staðar. Ég er þegar búin að sækja um arkitektúr í Listaháskólanum og ef ég kemst inn horfi ég til þess að byrja strax í haust. Vonandi gengur það. Ég hef alltaf haft áhuga á húsum og hvernig þau hafa áhrif á fólk. Ég hef löngun til þess að hanna hús og takast á við að fella þau inn í náttúruna. Það er áhugavert verkefni,” segir Mjöll.

Myndlistin er sannarlega í blóði Mjallar. Afi hennar var sá merki myndlistarmaður Hringur Jóhannesson sem lést árið 1996. Sonur Hrings og móðurbróðir Mjallar er myndlistarmaðurinn Þorri Hringsson.

“Námið í VMA hefur verið skemmtilegur og gefandi tími. Þessi þrjú ár hafa verið fljót að líða. Ég hef þurft að halda vel á spöðunum til þess að ljúka náminu á þremur árum og hef auk dagskólans tekið nokkur bókleg fög í fjarnámi,” segir Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir.

Nú hangir uppi á vegg mót austurinngangi VMA akrílverk sem Mjöll vann í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur. Hún segist hafa viljað ná fram þægilegri stemningu í myndinni og litasamsetningin hafi verið hugsuð út frá því. “En mig langaði til þess að gera hlutina öðruvísi og því ákvað ég að bregða gardínu að hluta yfir myndina.”