Fara í efni

Heimsókn frá Oppdal í Noregi

Nemendur, kennarar og þjálfarar frá Oppdal.
Nemendur, kennarar og þjálfarar frá Oppdal.

VMA er einn þriggja skóla á Norðurlöndum sem taka þátt í Erasmus+ verkefni sem hefur yfirskriftina "Vinn-vinn" (Winn-winn) og fjallar um íþróttir í samfélaginu. Hinir tveir skólarnir eru Oppdal videragående skole í Oppdal í Noregi og Fjerritslev gymnasium, í samnefndum bæ á Norður-Jótlandi í Danmörku, skammt vestan Álaborgar. Þessa viku er hópur nemenda, kennara og íþróttaþjálfara frá skólanum í Oppdal í heimsókn á Akureyri en markmiðið með þessu Erasmus verkefni er að bæta lýðheilsu með auknu samstarfi milli lýðheilsu- og/eða íþróttabrauta skólanna og annara aðila í nærsamfélaginu. Liður í því er að fara með nemendahópa í heimsóknir milli landanna í því skyni að nemendur fái að kynnast mismunandi aðstæðum til hreyfingar og iðkunar íþrótta. Áherslan í verkefninu í skólunum í Noregi og Danmörku er á útivist og útiveru en hér á Akureyri er þemað knattspyrna og um hana er VMA í samstarfi við KA. 

Frá Oppdal videregåenda skole komu ellefu nemendur (3 stelpur og 8 strákar) til Akureyrar auk tveggja kennara/þjálfara við skólann og skólastjóra skólans og einnig eru í hópnum tveir þjálfarar frá íþróttafélaginu í Oppdal. Í þessum skóla í Noregi geta nemendur stundað nám á íþróttabraut og þar er mesta áherslan á alpagreinar skíðaíþrótta en einnig knattspyrnu og útiveru almennt. Nefna má að einn fremsti alpagreinaskíðamaður Norðmanna, Aksel Lund Svindal, var í þessum skóla á sínum tíma. Nemendurnir frá Oppdal sem eru þessa dagana á Akureyri hafa valið knattspyrnu í námi sínu og áherslan í heimsókninni til Akureyrar er því knattspyrna. Nemendur og þjálfarar fara á æfingar í 2. flokki kk hjá KA og stelpurnar fara á æfingar hjá Þór/KA. Dagskráin er þéttskipuð en auk knattspyrnunnar fá nemendur tækifæri til þess að fara á hestskap, fara í sund og einnig verður náttúruskoðunarferð í Mývatnssveit. Hópurinn heldur heim á leið nk. sunnudag. Á sama tíma og gestirnir frá Oppdal eru á Akureyri er annar hópur frá Oppdal í heimsókn í Fjerritslev á Jótlandi.

Nemendur af íþrótta- og lýðheilsubraut VMA munu í september nk. fara í heimsóknir til Oppdal og Fjerritslev.

Hér eru nemendur og kennarar á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA og nemendur og kennarar/þjálfarar frá Oppdal og hér eru nemendur skólanna að bera saman bækur sínar.