Fara í efni

Íþróttabraut - stýrimaður - sjávarútvegsfræði

Einar Hannesson, stýrim. og sjávarútvegsfræðinemi.
Einar Hannesson, stýrim. og sjávarútvegsfræðinemi.

Sem kunnugt er eru leiðir fólks í gegnum nám afar mismunandi. Möguleikarnir og tækifærin eru óþrjótandi. Einar Hannesson, 25 ára Akureyringur, er einn þeirra fjölmörgu sem hafa farið töluvert óhefðbundna leið í skólakerfinu. Að loknum grunnskóla fór hann á íþróttabraut í VMA haustið 2008 og var á henni í tvo vetur en eitt sumarið fór hann á sjóinn á togaranum Sigurbjörginni ÓF og þá var teningnum kastað.

Það kom raunar ekki á óvart að sjórinn heillaði Einar því sjómennskan og útgerð var áratugum saman samofin hans föðurfólki í Ólafsfirði og því má segja að sjómennskan sé í blóðinu. Garðar Guðmundsson afi hans var skipstjóri og útgerðarmaður og Guðmundur Garðarsson föðurbróðir hans var einnig skipstjóri.

“Það má segja að ég hafi orðið ástfanginn af sjónum og í framhaldinu fór ég í Tækniskólann á skipstjórnarbraut og lauk því námi árið 2014 með stúdentsprófi og fullum skipsstjórnarréttindum. Í tvö og hálft ár starfaði ég sem stýrimaður en ákvað þá að mennta mig meira og fór í sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri fyrir tveimur árum. Mér líkar námið afar vel. Þetta er krefjandi nám, sérstaklega fyrsta árið. Það er töluverð verkleg kennsla í efnafræði, líffræði og örverufræði og einnig er töluvert mikil stærðfræði. Mér líkar mjög vel til sjós en engu að síður var ég hugsi yfir því hvort ég vildi eyða allri ævinni í vinnu út á sjó. Niðurstaðan var sú að afla mér frekari menntunar sem tengdist sjávarútveginum og ég sé fyrir mér að starfa í greininni í framtíðinni. Þrátt fyrir að fara í þetta nám hef ég þó ekki sagt skilið við sjómennskuna. Það fer vel saman að hafa skipstjórnarréttindin og einnig sjávarútvegsfræðina. Hún er mjög góður grunnur fyrir ákveðna sérhæfingu, til dæmis er aldrei að vita nema ég bæti við mig þekkingu á fjármálahliðinni. Ég er fjármálastjóri Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og kann vel við þá umsýslu. Sjávarútvegsfræðin snýst ekki bara um fisk, hún veitir innsýn í svo ótal margt og vísar fólki veginn í ólíkar áttir. Það segir sína sögu um breidd námsins að ofan á BS-próf í sjávarútvegsfræði þarf aðeins eitt ár til viðbótar til þess að ljúka námi í viðskiptafræði.

Á sínum tíma þegar ég fór á íþróttabraut VMA var alls ekki inni í myndinni að fara þá leið í námi sem ég síðan fór. Ég fór á íþróttabraut með það í huga að afla mér þekkingar til þess að þjálfa íþróttir eða fara áfram í nám í íþróttafræði. En þetta fyrsta sumar mitt til sjós á Sigurbjörginni breytti öllum mínum áformum og áherslum,” segir Einar en hann mætti í sinn gamla skóla í síðustu viku til þess að kynna nemendum í VMA möguleika til náms í sjávarútvegsfræði og öðrum greinum í Háskólanum á Akureyri.