Fara í efni

Verðandi smiður eða kokkur - það er spurningin!

Hlynur Halldórsson.
Hlynur Halldórsson.

Hlynur Halldórsson, 24 ára Akureyringur, er á fimmtu og síðustu önn í húsasmíði og þar með á lokasprettinum í náminu. Handan við hornið bíður sveinspróf í húsasmíði. Á þessari síðustu önn eru nemendur undirbúnir sem best fyrir það.

Vegurinn að sveinsprófi í húsasmíði hefur ekki verið beinn og breiður því Hlynur hefur vissulega tekið töluvert mikla beygju á leiðinni. Veturinn 2010-2011 var hann í MA en ákvað að færa sig upp í VMA og fór í grunndeild matvælagreina. Lauk því námi og sömuleiðis námssamningi sem matreiðslumaður. Á því í raun aðeins 2. og 3. bekkinn eftir til þess að geta farið í sveinspróf í matreiðslu. Hlynur segist ekki útiloka að hann muni einhvern góðan veðurdag skella sér í þessa tvo bekki í matreiðslunáminu og ljúka því líka.

“Ég hefði aldrei getað séð mig á skrifstofu, þess vegna lá beint við að fara í iðngrein. Matreiðslan varð fyrst fyrir valinu og ég kunni henni ágætlega. Ákvað síðan að fara í húsasmíðina haustið 2015 og hef verið á samningi hjá fyrirtækinu Ými hér á Akureyri. Allt iðnnám, hvort sem maður vinnur við það eða ekki, nýtist mjög vel. Ég vinn hjá Ými með skólanum og horfi til þess að halda áfram að vinna í smíðunum að loknu sveinsprófi. Hins vegar þykir mér áhugaverður kostur að fara í byggingatæknifræði og hver veit nema að sú verði raunin. Það kemur síðar í ljós, margir möguleikar eru í boði,” segir Hlynur Halldórsson.