Fara í efni

Nám í pípulögnum eftir nokkurra ára hlé

Nemendur velta vöngum yfir frárennslislögnum.
Nemendur velta vöngum yfir frárennslislögnum.

Pípulagnir eru nú kenndar í VMA eftir nokkurra ára hlé. Elías Óskarsson, pípulagnameistari hjá Miðstöð ehf. á Akureyri, sér um fagkennsluna í náminu. Segja má að námið sé í þremur þrepum. Í fyrsta hlutanum taka nemendur grunndeild byggingadeildar í VMA og síðan hafa þeir val um hvaða leið þeir fara áfram; húsasmíði, húsgagnasmíði, múrverk, málara eða pípulagnir.

Þeir tólf nemendur sem nú stunda nám í pípulögnum við VMA eru á öðru þrepi eða áfanga námsins. Ekki er áskilið að nemendur séu allir á námssamningi á öðru þrepi en hins vegar verða þeir að vera á samningi til þess að fara á þriðja prep og í sveinspróf að því loknu. Gert er ráð fyrir að þriðji og síðasti áfangi námsins verði í boði að ári liðnu, á vorönn 2019.

Allir tólf nemendurnir sem nú stunda nám í pípulögnum eru á Akureyri og starfa hjá ýmsum pípulagnafyrirtækjum í bænum. Þeir hafa þannig nú þegar öðlast eilitla reynslu á vinnumarkaði sem nýtist þeim vel í náminu. Þegar litið var inn í kennslustund í gær, þriðjudag, voru nemendur á kafi í því að leysa verkefni dagsins, sem að þessu sinni voru frárennslislagnir; mælingar á staðsetningu lagna og brunna frá húsvegg, skrá niður efnis- og verkfæralista og velta vöngum yfir því hvernig best væri að vinna verkið.

Elías Óskarsson segir að námið sé blanda af verklegu og bóklegu námi og í stað þess að kenna nokkrar kennslustundir alla daga vikunnar sé náminu þjappað á tvo daga í viku – mánu- og þriðjudaga frá kl. 8 til tæplega 18. Þetta fyrirkomulag nýtist betur bæði nemendum og vinnuveitendum þeirra, þannig geti nemendur unnið fulla vinnudaga hjá sínum fyrirtækjum frá miðvikudegi til föstudags.

Auk bóklegra fyrirlestra og verkefna í skólastofu segir Elías að farið sé út á örkina og nemendum kynnt verk af ýmsum toga. Þannig nái þeir að safna sem mestu í reynslubankann sem nýtist þeim afar vel. Einnig miðli nemendur af reynslu sinni sín á milli, sem komi til af því að í sinni daglegu vinnu séu þeir að vinna að ólíkum verkum. Þessar myndir tók Egill Þorsteinsson hjá Miðstöð ehf. þegar nemendur fóru sl. mánudag í heimsókn í nýbyggingarnar að Austurbrú á Akureyri – við Drottningarbraut. Eins og sjá má á þessum myndum heyra ofnar meira og minna liðinni tíð í nýbyggingum og hitalagnir í gólfum allsráðandi. Það er þó ekki svo alls staðar. Í mörgum húsum verður slíku ekki við komið, að ekki sé talað um í eldri timburhúsum.

Plastlagnir í húsum og frárennslislögnum eru allsráðandi nú til dags en það þýðir þó alls ekki að gömlu vatnslagnirnar séu úr sögunni. Í mörgum eldri húsum sé ekkert val um að nota plast í stað gömlu lagnanna. Gott dæmi um þetta eru mörg friðuð timburhús, eitt þeirra er t.d. elsta hús Menntaskólans á Akureyri. Þess vegna segir Elías að gamla handverkið verði að vera á sínum stað í náminu eftir sem áður, nemendur verði að kunna skil á öllum verkum til þess að takast á við síðar á starfsævinni, þar með talið að snitta með gamla laginu.

Það er meira en nóg að gera fyrir alla þessa tólf nema í pípulögnum. Raunar má segja að almennt skorti fagmenntaða iðnaðarmenn. Hvað sem allri tækniþróun líður segir Elías kristaltært að alltaf verði þörf fyrir fagmenntaða pípulagningamenn.