Fara í efni

Háskólanám og golf í USA eftir VMA

Tumi Hrafn Kúld lýkur námi frá VMA í vor.
Tumi Hrafn Kúld lýkur námi frá VMA í vor.

Tumi Hrafn Kúld fékk golfbakteríuna ungur að árum og eftir það varð ekki aftur snúið. Hann lýkur stúdentsprófi af íþróttabraut VMA í vor og síðan liggur leiðin vestur til Bandaríkjanna í háskóla þar sem Tumi hefur tækifæri til að stunda golf af fullum krafti til hliðar við námið.

Tumi segir að hann hafi fyrst farið í golf með foreldrum sínum tíu ára gamall og fundist satt best að segja hundleiðinlegt. Foreldrar hans stunduðu golfið af krafti og tóku gjarnan einn hring síðdegis en Tumi varð eftir heima. Hann sá að við svo búið mátti ekki standa og fór að fara markvisst með þeim á völlinn og fljótlega tók áhuginn að glæðast. Og ekki dró úr áhuganum þegar Tumi vann 9 holu byrjendamót á golfvelli Holfklúbbsins Hamars í Svarfaðardal. Sá sigur var sem vítamínsprauta og Tumi bætti í við æfingar á golfinu. Á þessum tíma var hann einnig í handbolta og fótbolta í KA en golfið tók smám saman yfir. Hann landaði Íslandsmeistaratitli í holukeppni í unglingaflokki bæði 2014 og 2015 og seinna árið tók hann þátt í Evrópumeistaramótinu í aldursflokknum 18 ára og yngri.

Síðustu tvö sumur hefur Tumi verið meira og minna við æfingar og keppni í Wisconsin í Bandaríkjunum. Það var einmitt þar sem golfþjálfari liðs háskólans Western Carolina University í Norður-Karólínu sá Tuma slá sumarið 2016 og hafði strax orð um að hann vildi fá hann í sitt skólalið. Og nú liggur fyrir að það gengur eftir. Nýverið gekk Tumi frá samningi við Western Carolina University um að næsta sumar hefj hann þar nám á góðum skólastyrk. Tumi reiknar fastlega með að vera næstu fjögur árin þar vestra við nám, fyrstu tvö árin segir hann að námið sé nokkuð víðtækt en síðan velji hann þá námsbraut sem hann vilji taka. Á þessum tímapunkti segist Tumi ekki vera búinn að gera það endanlega upp við sig hvaða leið hann velji en svo mikið sé víst að af mörgu áhugaverðu sé að taka. Hann mun fara út um miðjan ágúst og skólinn hefst síðan 22. ágúst.

Sem liður í undirbúningi námsins í Norður-Karólínu mun Tumi fara þangað í næsta mánuði í boði skólans til þess að skoða aðstæður. En áður en að því kemur verður hann einn af sex kylfingum sem spila fyrir Íslands hönd á móti á Spáni í aldursflokknum 20-23 ára. Tumi er fæddur 1997 og verður 21 árs í mars nk. Hann er eini kylfingurinn utan höfuðborgarsvæðisins í keppnisliði Íslands á þessu móti sem heitir 1st Octagonal Match og verður dagana 23. til 26. janúar nk. Í mótinu mæta íslensku strákarnir jafnöldrum sínum frá Tékklandi, Spáni, Englandi, Finnlandi, Þýskalandi, Ítalíu og Hollandi.

„Það hefur lengi verið minn draumur að komast á skólastyrk í Bandaríkjunum til þess að hafa möguleika á því að stunda þar golf jafnhliða háskólanámi. Ég ætla mér að nýta þetta vel enda frábært tækifæri fyrir mig. Auk golfæfinga í skólanum munum við fá tækifæri til þess að keppa á fjölda móta hér og þar í Bandaríkjunum. Ég ætla að leggja hart að mér og mig langar til þess að stefna á atvinnumennsku í golfinu að háskólanáminu loknu,“ segir Tumi og víst er að hæfileikarnir eru til staðar. Um það vitnar góð staða hans eftir fyrstu mótin á á Eimskipsmótaröðinni 2017-2018.