Fara í efni

Heimsókn til VMA í tengslum við NORDPLUS verkefnið

Dagana 13.-18. september fékk VMA heimsókn frá framhaldsskólanemendum og kennurum frá Noregi, Svíþjóð og Eistlandi. Heimsókn þessi var í tengslum við NORDPLUS verkefni sem VMA hefur verið þátttakandi í síðasta árið með framhaldsskólum í áðurnefndum löndum. Síðasta skólaár fóru 11 nemendur og 2 kennarar í ferð bæði til Svíþjóðar og Noregs og nú var komið að VMA að vera gestgjafar.

Dagana 13.-18. september fékk VMA heimsókn frá framhaldsskólanemendum og kennurum frá Noregi, Svíþjóð og Eistlandi. Heimsókn þessi var í tengslum við NORDPLUS verkefni sem VMA hefur verið þátttakandi í síðasta árið með framhaldsskólum í áðurnefndum löndum. Síðasta skólaár fóru 11 nemendur og 2 kennarar í ferð bæði til Svíþjóðar og Noregs og nú var komið að VMA að vera gestgjafar.

Verkefni þetta nefnist "Nordic mindfulness" og þema þess er náttúra, náttúruvernd, sjálfbær ferðamennska og útivist. Heimasíða verkefnisins er: nordicmindfulness.net.

Dagskráin byrjaði að krafti föstudaginn 14. september. Dagurinn byrjaði með heimsókn í Norðurorku þar sem þátttakendur fengu fyrirlestur um fyrirtækið og stefnu þess í orkuöflun og í umhverfismálum. Einnig var farið í skoðunarferð út á Laugaland og í Glerárstöð. Eftir glæsilegan hádegismat sem nemendur og kennarar matvælabrautar buðu til,voru þátttakendur í fyrirlestrum og vinnuhópum í VMA og í Háskólanum á Akureyri. Edward Hujibens forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála var með skemmtilegan og fræðandi fyrirlestur um ferðamennsku á Ísland og Jón Pálmi Óskarsson læknir fjallaði um hreyfingu og heilsu. Einnig kom Þórgnýr Dýrfjörð í heimsókn sem fulltrúi Akureyrarbæjar og kynnti Akureyri.

Á laugardegi var haldið í ferð austur á Mývatn þar sem skoðaðar voru helstu náttúruperlur svæðisins, tókum upp "hverabrauð", og síðan var farið í Jarðböðin. Í kvöldmat var elduð dýrindis kjötsúpa sem matvælabrautin hafði undirbúið og síðan var gist í Mývatnssveit. Á sunnudeginum var farið í Ásbyrgi og endað á góðri gönguferð þar.

Mánudagur var svo síðasti dagur verkefnisins á Akureyri og var þá unnið í hópum. Aðalþema vinnuhópanna var heilsa í víðum skilningi.

Þrátt fyrir að við höfum ekki getað boðið upp á besta haustveðrið þá var þessi heimsókn að allra mati vel lukkuð og þarna skapast tengsl sem eru dýrmæt bæði fyrir nemendur, kennara og skólana.

Við viljum þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn til að gera þessa heimsókn mögulega. Þeim aðilum sem tóku að sér erlenda gesti í gistingu í heimahús þökkum við sérstaklega sem og nemendum og starfsfólki matvælabrautar sem voru til mikillar hjálpar við að gera heimsóknina skemmtilega og innihaldsríka. Einnig viljum við þakka nemendum VMA í þessu verkefni fyrir sitt framlag og eftirtöldum aðilum sem lögðu sitt að mörkum við þessa heimsókn: Norðurorka, Rannsóknarmiðstöð ferðamála og Háskólinn á Akureyri, Akureyarbær, MS á Akureyri, SBA Norðurleið, Strikið veitingastaður, mötuneyti heimavistarinnar, Lostæti, Brauðgerð Kristjáns, Nettó, Kjarnafæði og fyrirlesarar.