Fara í efni

Mikilsverð erlend samstarfsverkefni

Hildur Friðriksdóttir.
Hildur Friðriksdóttir.

Hildur Friðriksdóttir annast í vetur verkefnastjórn erlendra samskipta í VMA auk þess að starfa á bókasafni skólans og tekur hún við þessum verkefnum af Jóhannesi Árnasyni sem í vetur starfar sem áfangastjóri við hlið Sigurðar Hlyns Sigurðssonar.

„Þetta starf felur fyrst og fremst í sér að hafa yfirumsjón með þeim erlendu samstarfsverkefnum sem skólinn tekur þátt í. Í því felst að vera tengiliður fyrir hönd skólans og hafa yfirlit yfir hvaða samstarfsverkefni og styrkir skólanum standa til boða.
VMA tekur þátt í mörgum erlendum samstarfsverkefnum enda telur skólinn sig hafa hag af því. Skólinn hefur umsjón með sumum þessara verkefna en í öðrum erum við aðeins þátttakendur.
Núna lítur út fyrir að skólinn taki þátt í tveimur nýjum samstarfsverkefnum. Annað þeirra tengist íþróttakennslunni hér og einnig er KA þátttakandi í því verkefni. Hugsunin er sú að nemendur fari héðan og kynnist íþróttastarfi í hinum löndunum sem taka þátt í verkefninu og að sama skapi komi hingað nemendur og kynni sér íþróttastarf hér og taki þátt í því. Hitt verkefnið snýr að starfsnámi í dreifbýli og lýtur að því hvernig unnt sé að efla starfsnám í dreifbýli og hvernig nemendum verði gert kleift að sinna starfsnámi í sinni heimabyggð. VMA verður eini skólinn í þessu verkefni en einnig taka þátt í því ýmsar evrópskar stofnanir. Ef við horfum á námið hér má spyrja sig þeirrar spurningar hvort mögulega sé unnt fyrir nemendur á nokkrum starfsbrautum að taka hluta af sínu námi í sinni heimabyggð,“ segir Hildur og bætir við að vilji VMA standi til þess að eiga samstarf við erlenda skóla og stofnanir sem geri nemendum í VMA kleift að taka hluta af sínu starfsnámi erlendis. Í því sambandi nefnir hún dæmi um að bæði nemendur á sjúkraliðabraut og í hársnyrtiiðn hafi tekið hluta af starfsnámi sínu erlendis. „Í nóvember fáum við í heimsókn nemendur frá Berlín sem munu starfa á leikskólum hér á Akureyri í mánuð.  Þetta er ávöxtur samstarfs VMA og skóla í Berlín sem starfsfólk hér í VMA heimsótti m.a. í ferð til Berlínar í lok maí sl. Síðastliðinn vetur komu líka nokkrir nemendur frá Berlín og störfuðu á leikskólum hér og það gekk ljómandi vel.“

Hildur segist ennþá vera að setja sig inn í þau samstarfsverkefni sem VMA tekur þátt í en henni sé ljóst af því sem hún hafi nú þegar kynnt sér að þessi verkefni séu skólanum afar gagnleg og mikils virði.