Fara í efni

Smíða fyrsta flokks kerrur

Hinir vösku kerrusmiðir á málmiðnaðarbraut.
Hinir vösku kerrusmiðir á málmiðnaðarbraut.

Undir lok náms á málmiðnaðarbraut fá nemendur að spreyta sig í smíði ýmissa nytjahluta. Stærsta verkefni nemenda núna á vorönn er smíði á tveimur kerrum, sem síðan verða boðnar til sölu þegar smíðinni lýkur undir vorið.

Slík kerrusmíði hefur undanfarin ár verið fastur liður í námi nemenda sem eru að ljúka námi eða í það minnsta langt komnir með námið. Núna er níu nemenda hópur að smíða tvær kerrur og mun bróðurpartur þeirra ljúka námi í vor – eftir sex anna nám. Fyrsta árið er grunndeildin en síðan tekur við sérhæfing í fjórar annir. Flestir úr þessum níu nemenda hópi hafa valið sér stálsmíði en einnig eru nemendur í hópnum í blikksmíði og vélvirkjun.  

Kristján Kristinsson kennir nemendunum þennan smíðaáfanga. Hann segir að kerrusmíðin sé afar gott verkefni fyrir nemendur, á henni læri þeir mikið. Ekki er smíðað eftir fullmótaðri teikningu, heldur er sett í hendur nemenda að útfæra hluti og læra þannig að taka eitt skref í einu í smíðinni. Kristján vísar til þess að úti á vinnumarkaðnum – í smiðjum – komi það oft fyrir að viðskiptavinir komi inn og biðji um smíði á ákveðnum hlut, sem fyrst og fremst sé uppi á kolli á viðkomandi verkkaupa. Síðan sé það starfsmannanna í smiðjunum að útfæra. Undir þetta verði nemendur að vera búnir og því sé mikilvægt að hafa þjálfun í þessum vinnubrögðum. Kerrusmíðin sé kærkomin til þess.

Smíðin á kerrunum er í góðu samstarfi við fyrirtækið Ferrozink á Akureyri, sem útvegar allt efni til smíðinnar. Kerrurnar eru í grunninn úr heitgalvaníseruðu prófílfjárni. Hér er vandað til verka, svo mikið er víst og nemendurnir leggja sig fram um vandaða smíði. Í þessari viku fara kerrurnar í „bað“ hjá Ferrozink en eftir það verður farið í lokafráganginn, sem felst m.a. í því að klæða hliðarnar (úr vatnsheldum krossviði) og ganga frá gafli og rafmagni.

Kerrurnar sem nú eru í smíðum eru 1,5x3 m að stærð. Til samanburðar voru kerrurnar í fyrra 1,25x2 m. Hér er mynd af einni kerrunni í fyrra og við hlið hennar er kaupandinn, Jóhann Rúnar Sigurðsson formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri. Og hér má sjá myndir af kerrum eins og nú er verið að smíða. 

Kristján Kristinsson segir að sem fyrr verði kerrurnar boðnar til sölu er þær verði tilbúnar í vor. Hér gildi lögmálið „fyrstir koma – fyrstir fá“. Áhugasömum kaupendum er bent á að hafa samband við kennarana á málmiðnaðarbrautinni.