Fara í efni

Landsbankinn færir VMA tölvubúnað að gjöf

Arnar Páll, Sigríður Huld og Lárus.
Arnar Páll, Sigríður Huld og Lárus.

Landsbankinn á Akureyri hefur fært VMA að gjöf tölvubúnað sem nýtist mjög vel í skólastarfinu, enda mikil þörf fyrir endurnýjun tölvubúnaðar í skólanum. Annars vegar er um að ræða 10 tölvur og hins vegar 30 skjái.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, segist afar þakklát Landsbankanum á Akureyri fyrir þessa gjöf. Lengi hafi verið mikil þörf fyrir endurnýjun tölvubúnaðar skólans enda sé hann að meðaltali níu ára gamall. Hins vegar hafi ekki fengist fjárveiting frá ríkinu til nauðsynlegrar endurnýjunar á tölvum skólans og því sé þessi þessi höfðinglega gjöf Landsbankans afar kærkomin. Tölvubúnaðurinn – bæði tölvurnar tíu, sem séu allar ágætlega öflugar, og skjáirnir - sé nú þegar kominn í notkun.

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, segir að bankinn hafi ekki haft not fyrir þessar tölvur og skjáina og þegar forráðamenn bankans hafi haft spurnir af því að mikil þörf væri fyrir endurnýjun tölvubúnaðar í Verkmenntaskólanum hafi verið afar ánægjulegt að geta lagt skólanum lið með þessum hætti.

Á meðfylgjandi mynd eru Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri, (til vinstri), Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, og Lárus Sverrisson, þjónustustjóri einstaklingsviðskipta Landsbankans á Akureyri.