Fara í efni

Vorhlaup VMA í næstu viku

Frá vorhlaupinu sl. vor.
Frá vorhlaupinu sl. vor.

Með hækkandi sól og þegar snjóa leysir færist fiðringur í fæturna og skokkarar taka gleði sína sem aldrei fyrr. Vorið er farið að minna á sig og því verður efnt til Vorhlaups VMA í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 14. apríl. Þetta er annað árið í röð sem efnt er til slíks hlaups. Vert að er að undirstrika að þó svo að hlaupið sé kennt við VMA er það öllum opið og því upplagt tækifæri til þess fyrir alla skokkara á Akureyri og úr nágrannabyggðum að taka þátt og eiga skemmtilega síðdegisstund.

Anna Berglind Pálmadóttir, enskukennari við VMA, er potturinn og pannan í skipulagningu hlaupsins. Hún segir að í fyrra hafi verið riðið á vaðið og efnt til slíks hlaups í fyrsta skipti og þátttakan þá hafi verið prýðileg og hlaupið tekist ljómandi vel. Hún væntir ekki síður góðrar þátttöku núna og hvetur alla, unga sem aldna, að draga fram hlaupaskóla og taka þátt.

Hlaupið verður í lögformlegri braut – sömu braut og notast er við í hinu árlega Akureyrarhlaupi og er nákvæmlega mæld og viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands - frá Menningarhúsinu Hofi kl. 17.30 fimmtudaginn 14. apríl og verða í boði bæði 5 km og 10 km hlaupaleiðir. Keppt verður í þremur flokkum – karla og kvenna - í 5 km hlaupinu: opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km verður keppt í opnum flokki og framhaldsskólaflokki, karla og kvenna. Tímataka verður með flögum, sem gefur nákvæmari tíma. Hér má sjá legu brautarinnar. Allar frekari upplýsingar um hlaupið er að finna á vefnum hlaup.is.

Verðlaunapeningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla og kvenna auk fjölda útdráttarvinninga.

Skráning er komin í fullan gang á hlaup.is og lýkur á miðnætti 13. apríl. Sérskráning verður í boði fyrir framhaldsskólanema í VMA og MA til kl. 15:00 á keppnisdegi. Hægt verður að skrá sig á keppnisdegi í anddyri Átaks Strandgötu frá kl. 16:00-17:15 gegn hærra gjaldi.

Verð í forskráningu fyrir báðar vegalengdir:

  • 500 kr fyrir grunnskóla og framhaldsskóla (f. 1996 og seinna)
  • 1.500 kr fyrir opinn flokk (f. 1995 og fyrr)

Verð á keppnisdegi fyrir báðar vegalengdir:

  • 500 kr fyrir grunnskóla og framhaldsskóla (f. 1996 og seinna)
  • 2.000 kr fyrir opinn flokk (f. 1995 og fyrr)

Mælst er til þess að hlauparar forskrái sig á hlaup.is eða á skrifstofum VMA og MA en afhending gagna og síðustu skráningar fara fram í anddyri Átaks heilsuræktar við Strandgötu frá kl. 16:00-17:15.

Að hlaupi loknu gefst hlaupurum kostur á því að nýta sér búningsklefa Átaks heilsuræktar og að bregða sér í heita pottinn og/eða ísbað.

Anna Berglind Pálmadóttir segir að Vorhlaup VMA rími vel við að skólinn sé heilsueflandi framhaldsskóli. Hún segir að Þórduna komi að undirbúningi og skipulagningu hlaupsins ásamt nokkrum starfsmönnum skólans. Hún segist vænta þess að sem flestir nemendur skrái sig og taki þátt í hlaupinu. Þá nemendur sem ekki ætla að hlaupa vill Anna Berglind hvetja til þess að leggja hlaupinu lið með því að starfa í kringum það. Manna þurfi t.d. brautarvörslu, drykkjarstöðvar og ýmislegt fleira sem til fellur. Anna Berglind biður þá sem vilja rétta þessu framtaki hjálparhönd að hafa samband við sig sem fyrst. Hún er með netfangið annaberglind@vma.is.

„Fyrst og fremst hugsum við þetta sem heilsueflingu en umfram allt á þetta að vera skemmtilegt og góður félagsviðburður í skólanum. Við viljum að sem flestir taki þátt í hlaupinu og þetta er öllum opið, sérstök ástæða er til að undirstrika það. Ef einhverjir nemendur VMA eru komnir með fjarvistir í íþróttum fá þeir hinir sömu tvær fjarvistir frádregnar ef þeir taka þátt í Vorhlaupinu, annað hvort með því að hlaupa eða starfa í kringum hlaupið,“ segir Anna Berglind.

Anna Berglind segir að auk verðlauna verði fjölmörg útdráttarverðlaun – sem Þórduna hefur verið öflug við að safna - og því sé til mikils að vinna. Hún segir að meira sé lagt í hlaupið í ár en í fyrra, t.d. hvað varðar tímatökuna því nú verði svokölluð flögutímataka. Það þýðir að hver hlaupari fær þar til gerðan tölvukubb til þess að setja utan um annan fótinn og flagan skráir tímann þegar farið verður yfir marklínuna. „Við látum prenta fyrir okkur sérstök skráningarnúmer, sem ekki var í fyrra og því erum við á ýmsan hátt að leggja meira í þetta en í fyrra,“ segir Anna Berglind.