Fara í efni

Heldur manni ungum í anda að vinna með ungu fólki

Hjördís Stefánsdóttir.
Hjördís Stefánsdóttir.

Hjördís Stefánsdóttir hætti störfum við VMA um áramót eftir langan og farsælan kennsluferil við matvælabraut skólans. Hún segir þetta hafa verið einstaklega ánægjulegan tíma og er þakklát fyrir að hafa átt þess kost að leggja sín lóð á vogarskálarnar við uppbyggingu og þróun skólans.

„Ég hef verið síðan 1969 eða í tæp 47 ár í kennslu, þar af var ég skólastjóri í um fimmtán ár. Ég útskrifaðist sem hússtjórnarkennari vorið 1969 og þá um sumarið tók ég að mér starf kokks á Edduhótelinu á Laugarvatni. Ég var síðan beðin um að koma um haustið norður í Lauga til þess að kenna við hússtjórnarskólann þar og ákvað að slá til. Ég kenndi þar í fjögur ár en tók síðan 25 ára gömul við skólastjórastöðunni við hússtjórnarskólann og gegndi henni í tæp fimmtán ár. Síðan kenndi ég í um sjö ár við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Ég hafði leyst Margréti Kristins aðeins af við Verkmenntaskólann og Bernharð, þáverandi skólameistari, hafði orðað við mig að koma og kenna hér. Sverrir Pálsson, þáverandi skólastjóri Gagnfræðaskólans, lét mig hins vegar ekki í friði og sagðist hafa fulla stöðu handa mér við skólann. Það varð úr að ég ákvað að fara að kenna þar og sá tími var mjög skemmtilegur. Ég færði mig síðan yfir í Verkmenntaskólann fyrir tæpum 24 árum síðan. Hér vantaði kennara og Bernharð skólameistari bauð mér starf. Mér fannst afskaplega spennandi að takast á við kennslu hér við matvælabrautina og síðar var ég brautarstjóri hér í átta ár. Ég kenndi hér þegar við fluttum í núverandi húsnæði og það var mjög skemmtilegt að taka þátt í því að skipuleggja þessa fínu aðstöðu,“ segir Hjördís sem auk matvælagreina kenndi einnig um tíma útsaum, hekl og prjón í VMA.

Hjördís, sem er 67 ára gömul, segist hafa haft ómælda ánægju af því að kenna ungu fólki öll þessi ár. „Ég hef stundum sagt að ég hafi fengið í vöggugjöf ómælt þrek og það hefur dugað mér vel. Ég hef alltaf haft gaman af því að vinna, takast á við ný verkefni og sigrast á þeim. Það heldur manni ungum í anda að vinna með ungu fólki. Ég hef bæði kennt verklegt og bóklegt og einhvern veginn er það svo að verklega kennslan býður upp á mikla nálægð við nemendur og þá skapast heilmiklar umræður og maður kynnist krökkunum vel. Stundum þarf maður að vera ströng og ákveðin en stóra málið er að nemendur finni að maður vilji þeim vel,“ segir Hjördís. Hún segir að starfsandinn í VMA í gegnum tíðina hafi verið einstakur, fólk hafi alltaf verið tilbúið að leggja hönd á plóg við að aðstoða ef þörf hefur verið á.

Hjördís segist vera full bjartsýni á framtíð matvælabrautar VMA. „Þeim veitingastöðum hefur fjölgað hér sem geta tekið nema og það er mjög mikilvægt. Skólinn er kominn með heimild til þess að fullmennta kokka og þjóna og það stefnir í að það nám hefjist næsta haust. Það er virkilega stór og ánægjulegur áfangi og það er sömuleiðis mjög ánægjulegt hversu ríkur vilji er af hálfu atvinnulífsins til þessarar samvinnu. Þetta er mjög mikilvægt skref því það hefur sýnt sig að fyrir margt ungt fjölskyldufólk hefur verið fjárhagslega erfitt að fara suður til þess að klára námið. Núna er það úr sögunni og það er afskaplega ánægjulegt. Það er gott að skilja við skólann þegar draumar sem maður hefur lengi átt hafa ræst. Og eitt verð ég að segja um stjórnendur hér, bæði Bernharð og Hjalta Jón, að þeir hafa alltaf borið mikla virðingu fyrir því starfi sem við sem fagfólk höfum verið að vinna. Þeir hafa treyst manni fullkomlega og hlustað á það sem maður hefur haft fram að færa og fyrir það vil ég þakka sérstaklega.“

Þrátt fyrir að hætta kennslu við VMA segist Hjördís ekki hafa í hyggju að setjast í helgan stein, eins og það sé kallað. Hún hafi fengið boð um að taka að sér ýmis tímabundin verkefni, sem geti vel verið að hún komi til með að takast á við. Hún sjái líka möguleika á að ferðast meira og auðvitað að sinna barnabörnunum meira en hún hafi haft tækifæri til. „Svo er auðvitað ýmislegt sem ég hef þá meiri tíma til þess að sinna heima í sveitinni, grípa í hannyrðir, lesa og margt fleira,“ segir Hjördís og vísar til þess að hún býr á Laugum í Reykjadal.

Í þessum mánuði kemur út ný útgáfa kennslubókar í matreiðslu og bakstri, sem er einskonar „biblía“ í grunnnámi matvæla- og ferðagreina í VMA. Hjördís hefur tekið bókina saman með Marínu Sigurgeirsdóttur, matreiðslumeistara og brautarstjóra grunndeildar matvæla- og ferðagreina, en þær hafa lengi starfað saman. Í formála bókarinnar segja þær Hjördís og Marína að upphaflega hafi efni bókarinnar verið tekið saman í þeim tilgangi að hafa uppskriftir og aðferðir aðgengilegar fyrir nemendur í grunnnámi matvælagreina við VMA. Þessum uppskriftum hafi þær safnað saman á löngum starfsferli og þróað og endurbætt til kennslu. Til að byrja með var tilraunaútgáfa bókarinnar kennd í VMA og Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og reynslan af henni nýttist við útgáfu fyrstu útgáfu bókarinnar 2012. Síðustu fjögur ár hafa Hjördís og Marína endurskoðað bókina, tekið út uppskriftir og komið með nýjar í staðinn, og nú er sem sagt að koma út splunkuný útgáfa bókarinnar.