Fjölbreytt Evrópusamstarf
Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni er Verkmenntaskólinn virkur í Evrópusamstarfi og á það bæði við um verknáms- og bóknámsbrautir skólans. Nemendur og starfsmenn VMA hafa farið í ferðir til hinna ýmsu Evrópulanda og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum í samstarfi við skóla í einu landi eða fjölþjóðaverkefnum þar sem fulltrúar skóla frá nokkrum Evrópulöndum vinna saman. Einnig hafa kennarar farið oft í ferðir til Evrópulanda til þess að kynna sér skóla og ólíkar kennsluaðferðir og ekki má gleyma starfsþjálfun nemenda af ýmsum verknámsbrautum skólans sem jafnan er nokkrar vikur eða mánuðir. Allar þessar ferðir, sem Erasmus+ styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- og íþróttamál gerir kleift, eru mikilvægar fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Þær víkka út sjóndeildarhringinn á svo margvíslegan hátt, veita tækifæri til þess að sjá fjölmargt nýtt sem nýtist í kennslu og námi í VMA, fyrir svo utan þau tengsl sem skapast milli nemenda og kennara í hinum ýmsu löndum.
Á liðnu ári var VMA í mörgum slíkum verkefnum og fyrir liggur að nokkur verkefni eru framundan. Til dæmis munu nemendur í 2. bekk í matreiðslunáminu í VMA fara með kennurum til Spánar, nánar tiltekið á Madrídarsvæðið, í vetur og kynna sér spænskar matarhefðir. Þar er sannarlega af nægu að taka.
Dæmi um vel heppnað samstarf milli landa eru gagnkvæmar heimsóknir VMA og skóla í Giulianova á Ítalíu á síðasta ári. Þetta er lítill bær á ítalska vísu, með íbúafjölda á bilinu 20 til 30 þúsund. Bærinn er við Adríahafið, á miðjum Ítalíuskaganum.
Tæplega tuttugu nemendur VMA og þrír kennarar, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir, Börkur Már Hersteinsson, og Kristjana Pálsdóttir Margrétardóttir, fóru seinnipart maí á sl. ári til Giulianova og kynntu sér þarlenda menningarstrauma frá ýmsum hliðum, ekki síst var horft til arkitektúrs enda Ítalía óneitanlega óþrjótandi akur byggingarlistar frá fyrri öldum. Ekki aðeins voru byggingar skoðaðar í Giulianova heldur einnig farið til Rómar, Assisi og fleiri staða. Dagskráin var þétt og einkar vel skipulögð af hálfu gestgjafanna í Giulianova og tókst ferðin afar vel og stóð fyllilega undir væntingum. Auk ferða út fyrir Giulianova tóku nemendur í framhaldsskóla í bænum vel á móti VMA-ferðalöngunum og þeir áttu saman góðar stundir í skólanum.
Í október sl. kom síðan um tuttugu manna hópur nemenda og starfsmanna frá þessum skóla til Akureyri og nú var VMA-hópurinn í hlutverki gestgjafans. Ítölsku gestirnir komu að sjálfsögðu í VMA og unnið var að sameiginlegum verkefnum og einnig var efnt til afar vel heppnaðra náttúruskoðunarferða þar sem Ítalarnir sáu m.a. Goðafoss og valda dýrðarstaði í Mývatnssveit, fóru í Sjóböðin á Húsavík og sáu hvali í banastuði á Eyjafirði. Punkturinn yfir i-ið var síðan alvöru norðurljósasýning. Ítalarnir fóru af landi brott fullir þakklætis og áttu ekki orð yfir náttúrufegurðinni á Íslandi.
Framangreint dæmi er eitt af mörgum um árangursrík og skemmtileg tengsl sem Erasmus+ verkefnin hafa skapað milli VMA og hinna ýmsu skóla í Evrópu. Áfram verður haldið á þessari braut.