Í vetrarstillum í Rovaniemi
Alla þessa önn, frá því 15. ágúst sl., hefur Gylfi Örn Atlason, nemandi í byggingadeild VMA, stundað nám í byggingadeild verkmenntaskólans REDU í Rovaniemi í Finnlandi á Erasmus+ styrk, sem greiðir bæði ferðir til og frá Rovaniemi og uppihald hans þar. Nú fer óðum að styttast í dvöl hans þar ytra því hann snýr heim til Íslands að tæpri viku liðinni, 1. desember nk., og verður þá búinn að vera í Rovaniemi í um hundrað daga. Gylfi Örn segist hafa kunnað dvölinni í Rovaniemi og náminu í REDU afar vel, raunar svo vel að það liggi við að hann vilji ekki snúa aftur heim!
Rovaniemi er höfuðstaður Lapplands – sem er nyrsti hluti Finnlands. Vegalengdin frá höfuðborginni Helsinki til Rovaniemi er ríflega 800 kílómetrar eða sem næst tíu klukkustunda akstur. Flug milli þessara borga tekur tæpa hálfa aðra klukkustund. Íbúar í borginni og í næsta nágrenni eru um 60 þúsund. Ferðaþjónusta er ríkur þáttur í atvinnulífinu í Rovaniemi, ekki síst á þessum árstíma. Þar er heimsfrægt jólaþorp og mikill fjöldi ferðamanna úr öllum heiminum heimsækir Rovaniemi í því skyni að sækja heim hinn eina og sanna finnska jólasvein. Til fjölda ára hafa Finnar markaðssett heimkynni jólasveinsins í Rovaniemi og það hefur sannarlega borið ríkan ávöxt.
Gylfi Örn segir að veðrið í Norður-Finnlandi hafi verið milt í haust og snjórinn komið seinna en oft áður. Hins vegar sé veðrið núna eins og venja er til á þessum árstíma, um tíu sentímetra jafnfallinn snjór, logn og um 20 gráðu frost. Hann segist vart minnast þess að vind hafi hreyft síðan hann kom til Rovaniemi, þar séu veðurstillur ríkjandi. Þrátt fyrir tuttugu gráðu frost segist hann ekki finna fyrir óbærilegum kulda, tilfinningin sé svipuð og í tæplega tíu gráðu frosti á Íslandi og vindkælingu.
Gylfi Örn undirstrikar að fyrir sig hafi það verið mjög jákvæð upplifun að fá tækifæri til þess að dvelja þennan tíma í Rovaniemi. Lífið þarna sé rólegt og því kunni hann vel. Spurður út í finnskuna og hvernig honum hafi gengið að glíma við hana segir Gylfi að hann hafi ekki lært mikið í tungumáli heimamanna enda sé það snúið og málfræðin sérlega erfið viðfangs. Tungumálið hafi hins vegar ekki verið vandmál í skólanum því kennararnir hafi útskýrt hlutina fyrir honum á ensku.
REDU (Rovaniemi Joint Authority for Education) er stærsti verkmenntaskólinn í Lapplandi, með starfsstöðvar á fjórum stöðum, í það heila með um sjö þúsund nemendur. Gylfi segir að námið í byggingadeildinni í REDU hafi ekki verið svo mjög frábrugðið náminu í VMA, eitt og annað hafi verið kunnuglegt en annað nýtt.
Sem fyrr segir hefur Gylfi sótt nám í REDU alla þessa önn. Í október fengu nemendur viku vetrarfrí og þá heimsóttu foreldrar Gylfa hann til Rovaniemi. Þennan tíma hefur Gylfi búið á nemendagörðum. Töluvert er um slíkt húsnæði enda er Rovaniemi mikill skólabær.
Hér eru nokkrar myndir sem Gylfi tók á liðnu hausti og ein vetrarmynd sem var tekin sl. fimmtudag.
En hvað er framundan hjá Gylfa eftir að hann kemur heim til Íslands? Hann segist fara til síns heima í Reykjanesbæ og sem stendur sé planið að vinna eftir áramót og til næsta hausts þegar hann stefnir á að skipta um gír og fara á sjúkraliðabraut í VMA.