Fara í efni

Gamlar vélar sem nýjar

Einni af bílvélinni púslað saman aftur eftir upptekt. Mynd: Ásgeir V. Bragason.
Einni af bílvélinni púslað saman aftur eftir upptekt. Mynd: Ásgeir V. Bragason.

Það hefur lengi verið mikil spurn eftir menntuðum bifvélavirkjum og því er það ánægjuefni að nú eru þrettán nemendur á næst síðustu önn í bifvélavirkjun í VMA undir dyggri handleiðslu Ásgeirs V. Bragasonar, kennara og meistara í bifvélavirkjun. Þessir nemendur ljúka námi sínu næsta vor og þá er stefnan tekin á lokapunktinn, sveinspróf í faginu.

Bifvélavirkjun er blanda verklegs og bóklegs náms. Í verklega hlutanum er auðvitað víða komið við enda þarf kunnátta bifvélavirkja að vera yfirgripsmikil. Bílar hafa sem kunnugt er tekið stöðugum breytingum á undanförnum árum, m.a. hefur rafbílavæðingin rutt sér í auknum mæli til rúms. Þrátt fyrir það segir Ásgeir að grunnurinn í bílunum sé í stórum dráttum sá sami og því hafi grunngildin í náminu ekki tekið afgerandi breytingum.

Núna á haustönn hafa nemendur m.a. unnið að því að rífa í sundur gamlar og úr sér gengnar bílvélar, þær ástandsskoðaðar, skipt út hlutum sem þurfti að skipta út og þær síðan settar saman aftur og málaðar. Um er að ræða vélar sem Ásgeir kennari hefur safnað að sér í gegnum tíðina og voru geymdar á verkstæði hans. Núna koma þessar vélar, sem eru Ford 289cid, Pontiac 350cid Chevy 350cid og mmc 2,5 L, sér vel til að nemendur geti í þaula áttað sig á hvernig þær er uppbyggðar og saman settar.

Ásgeir hrósar nemendum fyrir vönduð og góð vinnubrögð í upptekt á þessum vélum. Hann segir ekki nokkurn vafa á því að þetta verkefni sé þeim mikilvægt veganesti. Hann segir að í raun séu þessar vélar núna orðnar sýningargripir og til standi að þær verði til sýnis á árlegri bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar á næsta ári og í leiðinni gefist tækifæri til þess að kynna þessa námsbraut í bifvélavirkjun.

Eftir áramót segir Ásgeir að m.a. verði farið í saumana á rafbílum en Tesla-umboðið í Reykjavík gaf við upphaf haustannar VMA/námsbraut í bifvélavirkjun Teslu til þess að nota til kennslu. Einnig fékk námsbrautin að gjöf frá Höldi á Akureyri rafmagnsmótor og gírkassa úr 2021 árgerð af KIA-bíl sem nýtist afar vel í kennslunni.

Nemendur þurfa að klára svokallaða ferilbók en í henni felst að þeir þurfa að hafa unnið að ákveðnum skilgreindum hlutum á verkstæði á tólf mánaða samningstíma. Tólf af þessum þrettán nemendum hafa starfað á verkstæðum á Akureyri en einn nemanna á Egilsstöðum. Hafi ferilbókin að fullu verið útfyllt og skóla lokið geta nemendur sótt um að þreyta sveinspróf.