Fara í efni

Í tónlist getur maður tjáð allar sínar tilfinningar

Lagahöfundurinn og sjúkraliðaneminn Valgerður Rakel Rúnarsdóttir í fjallasal í vetrarskrúða.
Lagahöfundurinn og sjúkraliðaneminn Valgerður Rakel Rúnarsdóttir í fjallasal í vetrarskrúða.

Á tímum þegar samfélagsumræðan um íslenskukunnáttu ungs fólks er oft og tíðum neikvæð og meðal annars vísað til þess að dregið hafi úr lestri bóka Nóbelskáldsins Halldórs Laxness er ástæða til að hafa í huga að fjölmargir af yngri kynslóðinni vinna skemmtilega með íslenska tungu, hvort sem er í skapandi skrifum, textagerð eða á annan hátt. Ágætt dæmi um þetta er verkefnið Málæði sem List fyrir alla og Bubbi Morthens ýttu úr vör á síðasta ári og hafa að markmiði að hvetja ungt fólk til að tjá sig á íslensku í tali og tónum. Nemendur í grunnskólum landsins sömdu lög og texta í samvinnu við þekkt tónlistarfólk. Lögin sem voru valin í verkefnið voru flutt í Ríkissjónvarpinu í nóvember 2024 í tengslum við Dag íslenskrar tungu og er óhætt að segja að þau hafi vakið verðskuldaða athygli. Eitt laganna er Riddari kærleikans, sem systradæturnar Valgerður Rakel Rúnarsdóttir og Dagmar Helga Helgadóttir, nemendur Grunnskólans austan vatna á Hofsósi, sömdu og GDRN flutti svo eftirminnilega. Lagið hefur heldur betur slegið í gegn.

Valgerður Rakel lauk 10. bekk sl. vor og hóf núna í haust nám á sjúkraliðabraut VMA. Hún er sveitastelpa, frá bænum Þrastarstöðum, skammt frá Hofsósi. Hún segir það vissulega hafa verið töluvert stórt skref fyrir sig að flytja til Akureyrar og hefja þar nám í nýjum skóla en fyrstu vikurnar hafi verið viðburðaríkar og skemmtilegar og hún sé sátt við að hafa valið þessa námsleið. Auðvitað er í mörg horn að líta hjá Valgerði. Stundataflan í skólanum er þétt en hún gefur sér þó tíma, samhliða náminu í VMA, til að læra á gítar í Tónræktinni á Akureyri.

„Það var sannarlega lærdómsríkt og skemmtilegt fyrir okkur að fara í gegnum það ferli að semja Riddari kærleikans og flytja lagið með þessu frábæra tónlistarfólki og krökkunum í grunnskólanum á Hofsósi. Og okkur fannst auðvitað mjög ánægjulegt að lagið hafi verið spilað í tengslum við nýársávarp Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og það kom líka við sögu í ávarpi hennar á þjóðhátíðardaginn. Einnig hefur lagið verið spilað í tengslum við Riddarar kærleikans – minningarsjóð Bryndísar Klöru og við komum líka fram á styrktartónleikum í Miðgarði fyrir Bryndísarhlíð - miðstöð fyr­ir börn sem hafa mátt þola of­beldi. Við erum auðvitað mjög þakklátar fyrir þá athygli sem lagið hefur vakið,“ segir Valgerður Rakel og rifjar upp að það hafi orðið til í framhaldi af því hræðilega ofbeldi sem leiddi til dauða Bryndísar Klöru Birgisdóttur á Menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. „Boðskapurinn sem við vildum draga fram með laginu og textanum er kærleikur, góðvild, að bera virðingu fyrir fólki og „vera ljós fyrir þá sem birtuna ei sjá“, svo vitnað sé til textans. Við byrjuðum á því að semja textann og síðan varð lagið smám saman til,“ segir Valgerður Rakel.

Valgerður segist hafa verið umvafin tónlist alla tíð enda sé fjölskyldan tónelsk. Hún hefur lært á píanó og ukulele en nú er gítarinn hljóðfærið sem á hug hennar allan. „Í tónlist getur maður tjáð allar sínar tilfinningar, bæði í gleði og sorg,“ segir hún.

Valgerður segir framtíðina óráðna en  sjúkraliðanámið veiti atvinnuréttindi og sé sé góður grunnur fyrir lífið og framtíðina. „Ég sé til hvað ég geri í framhaldinu en fyrst og fremst tel ég að sjúkraliðanámið, sem ég einbeiti mér að núna, sé mjög góður grunnur. Verknámið heillaði mig líka, ég er ekki týpan sem kýs að vera í hreinu bóknámi.“

Í ljósi þess hversu góðar viðtökur Riddari kærleikans hefur hlotið er spurt; er ekki von á fleiri lögum? Valgerður segist ekki geta sagt til um það, þær frænkurnar hafi vissulega fengið hvatningu til þess að halda áfram á þessari braut, aldrei sé að vita hvað framtíðin beri í skauti sér í þeim efnum.

Riddari kærleikans

Hlúðu að þeim er hugrekkið skortir
huggun í svartnætti og sorg.
Þegar depurð og drungi,
kvíði og kuldi
dreifast um alla borg.

Gættu að þeim er gleðina skortir
góðvildin er svo sterk.
Þegar hatur og harmur
vonleysi og villa
heltaka mannanna verk.

Vertu sól fyrir þá
sem að birtuna ei sjá.
Vertu vin fyrir þann
sem vonleysið fann.
Vertu viti á leið
fyrir vini í neyð.
Vertu riddari kærleikans.

Elskaðu þá sem ástina skortir
annastu viðkvæma sál.
Þegar brotsjór og brekkur
þrautir og þungi
slökkva í hjartanu bál.

Trúðu á þann sem tilganginn skortir
taktu burt vafa og hryggð
þegar skömmin og skuggar
heiftin og hræðslan
skyggir á hverja dyggð.

Vertu sól fyrir þá
sem að birtuna ei sjá.
Vertu vin fyrir þann
sem vonleysið fann.
Vertu viti á leið
fyrir vini í neyð.
Vertu riddari kærleikans.

Syngdu burt leiða
lofaðu lífið
fagnaðu hverri stund
opnaðu hjartað
finndu hve léttist þín lund.

Vertu sól fyrir þá
sem birtuna ei sjá.
Vertu vin fyrir þann
sem vonleysið fann.

Vertu sól fyrir þá
sem að birtuna ei sjá.
Vertu vin fyrir þann
sem vonleysið fann.
Vertu viti á leið
fyrir vini í neyð.
Vertu riddari kærleikans.
Vertu riddari kærleikans.