Æfingin skapar meistarann
Til þess að verða kokkar, þjónar, bakarar eða kjötiðnaðarmenn verða nemendur að hafa lokið tveggja anna grunnnámi. Í því fá nemendur innsýn í matreiðslu frá ýmsum hliðum, bakstur, framreiðslu og starf kjötiðnaðarmannsins og auðveldar námið þannig nemendum valið ef þeir kjósa að sérhæfa sig í einhverjum af þessum greinum. En þar fyrir utan eru auðvitað margir nemendur sem fara í grunnnám matvæla til þess að tileinka sér eitt og annað sem kemur hverjum og einum að góðum notum í lífinu.
Þegar litið var inn í verklegan tíma hjá Ara Hallgrímssyni í grunndeild matvæla á dögunum var fjölbreytnin í fyrirrúmi. Sumir glímdu við súpugerð, aðrir við að steikja fisk og einnig var bakað matarbrauð. Grunnur nemendanna er auðvitað mismunandi, sumir hafa fengið innsýn og áhuga á matreiðslu með því að vinna hin ýmsu aðstoðarstörf á veitingahúsum, hjá öðrum er lítil reynsla til staðar en mikill áhugi á að læra réttu vinnubrögðin í eldhúsinu eða við framreiðslu. Það sem gildir í þessu eins og svo mörgu öðru er að æfingin skapar meistarann.