Varpar ljósi á Akureyrarveikina
Eins og vera ber taka starfsmenn VMA sér ýmislegt fyrir hendur fyrir utan hin daglegu verk í skólanum. Óskar Þór Halldórsson ver mörgum frístundum í grúsk af ýmsu tagi og skriftir. Síðastliðinn föstudag sendi hann frá sér nýja bók, tæplega 400 bls. að stærð, um Akureyrarveikina, þann dularfulla sjúkdóm sem enn þann dag í dag hefur ekki verið fundið út hvað nákvæmlega var. Hvað sem síðar kann að vera, því við eftirgrennslan Óskars Þórs við vinnslu bókarinnar komu í leitirnar lífsýni úr sjúklingum sem veiktust af Akureyrarveikinni í janúar 1949. Mögulega geta rannsóknir á þessum sýnum varpað ljósi á hvers konar veikindi voru þarna á ferðinni. Flest bendir raunar til þess að um hafi verið að ræða einhvers konar veirusýkingu.
Bókin var kynnt í útgáfuhófi á Akureyri sl. föstudag og einnig verður kynning á henni nk. föstudag kl. 17 í sal Læknafélags Íslands við Hlíðasmára í Kópavogi.
„Ég er mjög ánægður með þau viðbrögð sem bókin fær og hún hefur nú þegar vakið töluverða athygli. Mér fannst að þessum kafla í sögu Akureyrar hefðu ekki verið gerð nægjanleg skil og því fór ég af stað. Ég sé ekki eftir því, þetta hefur verið afar áhugavert ferðalag sem hefur leitt mig inn á slóðir sem mér voru áður óþekktar. Ekki aðeins var Akureyrarveikin á Akureyri, hún dreifðist víða um land þennan vetur, 1948-1949, hlutfallslega fæst tilfelli voru á Austurlandi. Og síðan gerðist það sex árum síðar að annar faraldur af Akureyrarveikinni stakk sér niður á Vestfjörðum og í Þistilfirði. Kannski má segja að þessi bók komi út á hárréttum tíma því það kemur í ljós að mikil líkindi eru með einkennum fólks með Akureyrarveikina og þeim einkennum sem fólk með ME-sjúkdóminn fólk sem glímir við langtíma eftirköst COVID 19.
Ég studdist við hinar ýmsu rituðu heimildir, bæði íslenskar og erlendar, en bókina hefði ég nokkuð örugglega ekki getað skrifað nema vegna þess að ég talaði við fjölda fólks um allt land sem veiktist á sínum tíma og afkomendur fólks sem veiktist. Allar þessar sögur, margar þeirra átakanlegar, varpa nýju ljósi á þennan mikla og alvarlega faraldur. Sem betur fer náðu margir sér upp úr veikindunum en aðrir glímdu við afleiðingar veikinnar til æviloka. Þetta voru alvarleg veikindi og margir þeirra sem veiktust voru rúmfastir vikum og jafnvel mánuðum saman,“ segir Óskar Þór.