Fara í efni

Ásta Fönn Flosadóttir aðstoðarskólameistari VMA

Ásta Fönn Flosadóttir, nýr aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.
Ásta Fönn Flosadóttir, nýr aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

Ásta Fönn Flosadóttir hefur verið ráðin í stöðu aðstoðarskólameistara VMA og mun hún hefja störf með haustinu. Ásta var einn fimm umsækjenda um stöðuna, ein umsókn uppfyllti ekki skilyrði um hæfni.

Ásta Fönn er með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Ísland, B.Sc. í búvísindum frá Bændaskólanum á Hvanneyri og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla frá Háskólanum á Akureyri.

Hún hefur víðtæka reynslu úr skólasamfélaginu, m.a. sem kennari (1999-2008) og námsbrautarstjóri náttúrufræðibrautar við Menntaskólann á Akureyri (2003-2008) og í þrettán ár var hún skólastjóri við Grenivíkurskóla.

Frá árinu 2023 hefur Ásta, auk bústarfa á Höfða 1 í Grýtubakkahreppi, verið sviðsstjóri fjölskyldusviðs Þingeyjarsveitar en undir það svið falla m.a. skólamál sveitarfélagsins.

Á síðasta skólaári var Benedikt Barðason í leyfi frá starfi aðstoðarskólameistara VMA og gegndi þá stöðu skólameistara Framhaldsskólans á Laugum. Helga Jónasdóttir kennari við VMA gegndi stöðu aðstoðarskólameistara á síðsta skólaári. Benedikt Barðason var síðan skipaður í embætti skólameistara VMA frá 1. ágúst sl. Þá losnaði staða aðstoðarskólameistara skólans og var hún auglýst laus til umsóknar.

Verkmenntaskólinn á Akureyri býður Ástu Fönn velkomna til starfa við skólann.