Fara í efni

Hugmyndafluginu engin takmörk sett í vöruhönnun

Fatahengi í skíðahóteli- Freydís B. Kjartansdóttir
Fatahengi í skíðahóteli- Freydís B. Kjartansdóttir

Nemendur í vöruhönnunaráfanganum HÖN173 sýndu afrakstur vinnu sinnar á haustönn á sýningu sem listnámsbraut efndi til sl. mánudagskvöld. Af þeim hlutum sem til sýnis voru má álykta að nemendur hafi heldur betur gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Á sýningunni mátti m.a. sjá ólíkar útfærslur af lömpum og sömuleiðis gaf að líta afar fjölbreytta flóru fatahengja sem ætluð eru fyrir mismunandi hótel.

Hér má sjá myndir af lömpum og fatahengjum sem nemendurnir unnu í áfanganum.

Vöruhönnun var fyrst kennd á síðustu vorönn. Einn nemandi sem sat áfangann núna hafði einnig tekið hann á vorönn og því má segja að hann hafi byggt ofan á þekkingu sína núna á haustönn og því í raun tekið framhaldsáfanga. Helga Ragnheiður Jósepsdóttir, vöruhönnuður og kennari, segir að þessi sami nemandi hyggist halda áfram eftir áramótin og það gera nokkrir fleiri nemendur sem sátu HÖN173 núna á haustönn. Það liggur sem sagt fyrir að vöruhönnunaráfanginn verður„keyrður“ í þriðja skipti á vorönn 2015..

Helga hafði kennt vöruhönnun sem námskeið á háskólastigi erlendis en er nú að kenna þetta fag í fyrsta skipti á framhaldsskólastigi. Hún segist kunna því vel að opna augu ungs fólks fyrir vöruhönnun. „Það voru tólf nemendur í þessum áfanga núna á haustönn og bakgrunnur þeirra var mjög ólíkur, sem er bara gott. Það er einmitt mjög gott að nemendur í vöruhönnun komi úr ólíkum áttum með mismunandi bakgrunn,“ segir Helga en vöruhönnun er valáfangi og því öllum opinn, óháð því á hvaða námsbraut nemendur eru.  „Mér hefur þótt mjög skemmtilegt að kenna krökkunum og fá þá til þess að leysa viðfangsefnin og gefa hugmyndaaflinu lausan tauminn,“ segir Helga og vonast til þess að í framtíðinni verði unnt að útvíkka þetta námssvið í skólanum.