Fara í efni

Ánægjulegar heimsóknir í tvær blikksmiðjur

Lúðvík Áskelsson blikkari í Blikkrás upplýsir nemendur grunndeildar málmiðnaðar í VMA um ýmsa töfra …
Lúðvík Áskelsson blikkari í Blikkrás upplýsir nemendur grunndeildar málmiðnaðar í VMA um ýmsa töfra blikksmíðinnar. Mynd: Hörður Óskarsson.

Það er í senn mikilvægt og ánægulegt þegar nemendum gefst tækifæri til þess að skoða og kynna sér starfsemi fyrirtækja í sömu atvinnugrein og þeir læra í VMA. Það gerðist sl. föstudag þegar tvö málmiðnaðarfyrirtæki á Akureyri, Blikkrás og Blikk- og tækniþjónustuan, buðu nemendum í grunndeild málmiðnaðar í heimsókn í fyrirtækin. Bæði eru þau rótgróin og þjónusta atvinnulíf og einstaklinga út um allt land.

Grunndeildarnemar voru sóttir í rútu upp í VMA og fyrst lá leiðin í Blikkrás, sem er til húsa að Óseyri 16. Fyrirtækið var stofnað árið 1986 af Oddi Helga Halldórssyni og fjölskyldu og var það í hans eigu og rekstri til loka síðasta árs þegar nýir eigendur tóku við; Ottó Biering Ottóson, Hermann Biering Ottóson, Vilhelm Ottó Biering Ottóson og Hugrún Ósk Hermannsdóttir.

Ottó Biering, Jóhannes Valgeirsson framkvæmdastjóri Blikkrásar og Lúðvík Áskelsson verkstjóri og blikkari til áratuga tóku á móti nemendum og sögðu þeim á starfseminni og Lúðvík miðlaði til nemenda ýmsum fróðleik úr digrum reynslubanka sínum í faginu

Blikk- og tækniþjónustan, sem var stofnuð árið 1992 af Sveini Björnssyni, flutti á síðasta ári starfsemi sína í Fjölnisgötu 3b en áður hafði fyrirtækið lengi verið með aðsetur í Kaldbaksgötu 2, syðst á Eyrinni. Í gríðarlegum sjávarflóðum í september 2022 varð fyrirtækið fyrir umtalsverðu tjóni og í kjölfarið flutti það starfsemina út í Fjölnisgötu. Jónas Freyr Sigurbjörnsson, annar tveggja eigenda Blikk- og tækniþjónustunnar og verkstjóri, sagði nemendum frá starfsemi fyrirtækisins og sögu þess, verkefnum og tækjabúnaði.

Þessum ánægjulega degi lauk með því að blikkfyrirtækin tvö buðu nemendum upp á pizzu og drykki í húsnæði Blikk- og tækniþjónustunnar.

Ástæða er til að þakka fyrirtækjunum tveimur af heilum hug fyrir að taka svo vel á móti nemendum grunndeildar. Það verður aldrei nægilega undirstrikað hversu mikilvægt það er bæði skólanum og atvinnulífinu að eiga gott samstarf. Í málmiðnaðinum er skólinn að mennta framtíðarstarfsmenn í öllum greinum hans, blikksmíði þar með talinni, og því er afar jákvætt að nemendur fái góða sýn á þau verkefni sem blikkfyrirtækin eru að fást við.