Fara í efni

Hefur alltaf þótt meira gaman að vera með yngra fólkinu

Ásdís Karlsdóttir.
Ásdís Karlsdóttir.

Ekki verður sagt að aðstaða til íþróttakennslu á fyrstu árum Verkmenntaskólans á Akureyri hafi verið upp á marga fiska. En bæði kennarar og nemendur létu sér þetta lynda enda ekkert annað í boði. Ásdís Karlsdóttir var ein þeirra íþróttakennara sem tóku fyrstu skrefin í íþróttakennslu í skólanum fyrir um fjórum áratugum og kenndi íþróttir við skólann sem næst tvo áratugi – eða þar til hún varð 67 ára gömul.

„Aðstaðan var heldur bágborin. Til að byrja með var bara aðstaða fyrir verklega kennslu niður í Íþróttahöll og síðan voru bóklegu tímarnir upp í skóla. Það var því oft erfitt að koma saman stundaskrá því bæði við kennararnir og nemendur vorum á eilífum hlaupum á milli. En þetta var vissulega ágætis líkamsrækt!
Þegar við síðan fengum aðstöðu til verklegrar kennslu í kjallara skólans var auðveldara við þetta að eiga. Þar var parketlagt gólf og rimlar á veggjum en engin önnur tæki til kennslu. En það var þó ýmilegt gert til þess að setja upp einskonar tækjahring. Til dæmis fékk ég að kaupa svefnpokadýnur til þess að gera kviðvöðvaæfingar og einnig vorum við handlóð og sippubönd. Síðar fékk ég því framgengt að við fengum sjónvarpstæki til þess að nota í kennslunni því ég átti myndbandsspólur með erobik. Þessi nýjung í líkamsrækt var mjög vinsæl á þessum árum hjá stelpunum og þær tóku þessu því fagnandi. Á móti mér kenndu Hinrik Þórhallsson og Árni Stefánsson. Þegar síðan Árni hætti kom Ólafur H. Björnsson inn og hann er enn er að kenna.
Ég barðist lengi fyrir því að nemendur gætu valið hvaða íþróttir eða líkamsrækt þeir vildu stunda og það var mikil og jákvæð breyting þegar við fengum það í gegn. Þá sóttu þeir sem höfðu mestan áhuga á boltaíþróttum þá tíma í Íþróttahöllinni sem Hinrik og Árni sáu um. Ég var hins vegar uppi í skóla og þar vorum við með þrektíma, sem fólst annars vegar í útihlaupum og hins vegar þrekæfingum í sal. Smám saman fengum við fleiri þrektæki og gátum því sett upp alvöru þrektíma. Við buðum líka upp á danstíma og ég átti þess síðan kost áður en ég hætti að fá að kenna jóga og það var mjög vinsælt.
Líkamsræktarsalurinn var undir gömlu byggingunni og parketlagði salurinnn var inn af steinsteypta gólfinu þar sem þrektækin voru síðan sett. Þetta var gluggalaust rými og oft loftlaust en sturtuaðstaðan var ágæt. Sá íþróttasalur sem nú er notaður í VMA í kjallaranum í vesturhluta skólabyggingarinnar var hins vegar ekki kominn þegar ég hætti kennslu,“ segir Ásdís.

Ásdís segir að það hafi vissulega verið nokkrum erfiðleikum bundið að koma hlutunum heim og saman þegar hún þurfti bæði að kenna niður í Íþróttahöll og upp í skóla en eftir að nemendur gátu valið um þá hreyfingu sem þeir vildu stunda hafi hún nánast eingöngu verið upp í skóla og það hafi á allan hátt verið einfaldara.

„Ég hafði ánægju af kennslunni og samskiptum við unga fólkið. Mér hefur alltaf þótt meira gaman að vera með yngra fólkinu en því eldra!“ segir Ásdís og hlær. „Almennt gekk þetta ágætlega en auðvitað heyrði ég af því að stundum þegar krakkarnir áttu að hita upp með því að hlaupa að kirkjugarðinum og til baka sameinuðust þau í bíl og komu sér þannig undan upphituninni! En alltaf leystist þetta farsællega,“ segir Ásdís Karlsdóttir.