Fara í efni

Sköpunarferli frá hugmynd til verks

Akrílverk Hrafnels Myrkva Þórðarsonar sem nú má sjá á vegg mót austurinngangi VMA.
Akrílverk Hrafnels Myrkva Þórðarsonar sem nú má sjá á vegg mót austurinngangi VMA.

Næstsíðasti skylduáfanginn sem nemendur á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar taka (áður en kemur að lokaverkefni á lokaönn námsins) er á haustönn og heitir einfaldlega Málverk. Björg Eiríksdóttir kennir áfangann.

Hér er lögð áhersla á sköpunarferlið hjá hverjum nemanda. Útkoman úr vinnu nemenda er síðan akrílmálverk. En undanfari sjálfs verksins er upphafsferlið eða hugmyndavinnan. Nemendur koma með hugmyndir, vinna þær frá byrjun, leita víða fanga, kynna sér fjölbreytt verk myndlistarmanna, ræða við kennara og samnemendur um sköpunarferlið og gerir ótal skissur að lokaútfærslunni. Auðvitað er svolítið mismunandi hvaða leiðir nemendur fara að lokatakmarkinu en vinnuferlið er þó í stórum dráttum eins og hér að framan greinir. Þetta er sem sagt markviss þjálfun í sköpunarferli, frá hugmynd að fullmótuðu verki.

Sem fyrr segir var þessi málunaráfangi á haustönn 2023 en við munum á næstu vikum sjá hér á heimasíðunni afrakstur vinnu nemenda. Fyrsta verkið sem hér er kynnt  úr þessum áfanga vann Hrafnkell Myrkvi Þórðarson, sem mun útskrifast í maí nk. af listnáms- og hönnunarbraut. Verkið er nú til sýnis á vegg mót austurinngangi skólans.