Fara í efni

Erfitt að sitja og stara á bækur

Sindri Snær Konráðsson.
Sindri Snær Konráðsson.
Áhugasvið nemenda eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Bóknám liggur vel fyrir sumum nemendum, öðrum ekki. Hér í VMA standa nemendum til boða fjölmargar námsleiðir sem koma til móts við mismunandi þarfir þeirra. Sindri Snær Konráðsson er einn þeirra nemenda sem í grunnskóla komst að raun um að bóknámið ætti ekki vel við hann. Hann hóf nám í VMA haustið 2012 og er því núna þriðja veturinn í skólanum. Leiklistin opnaði fyrir honum nýja heima og sömuleiðis þáttagerð í VMA-útvarpinu.

Áhugasvið nemenda eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Bóknám liggur vel fyrir sumum nemendum, öðrum ekki. Hér í VMA standa nemendum til boða  fjölmargar námsleiðir sem koma til móts við mismunandi þarfir þeirra. Sindri Snær Konráðsson er einn þeirra nemenda sem í grunnskóla komst að raun um að bóknámið ætti ekki vel við hann. Hann hóf nám í VMA haustið 2012 og er því núna þriðja veturinn í skólanum. Leiklistin opnaði fyrir honum nýja heima og sömuleiðis þáttagerð í VMA-útvarpinu.

Sindri Snær er Akureyringur og var hann grunnskólaárin í Síðuskóla. Námið heillaði hann ekki átakanlega mikið og námsbækurnar höfðuðu lítt til hans. En hann heillaðist af félagslífinu í Síðuskóla og leiklistarbakterían tók hann heljargreipum, enda hafði hann snemma heillast af leiklistinni, fannst fátt jafnast á við að fara í Samkomuhúsið á Akureyri og sjá ævintýraheima birtast á sviðinu.

Herforingi í Síðuskóla
„Fyrsta árshátíðin í Síðuskóla er mér mjög minnistæð. Það var hefð að fyrsti bekkur dansaði samkvæmisdans og það breyttist ekki. Við dönsuðum tvö og tvö saman og auðvitað var ég í fremstu röð. En það var ekki fyrr en í öðrum bekk sem við lékum leikrit, ég var mjög spenntur. Ég man reyndar ekki hvernig var skipt í hlutverk, en ég man að ég var herforinginn. Það var stórt og krefjandi hlutverk. Ég þurfti að fara með ágætis rullu í einu atriðinu. Þarna sá ég að þetta var það sem ég vildi gera til lífstíðar. Námið var orðið algjört aukaatriði. Það eina sem ég var að bíða eftir í tíu ár var tíundabekkjarleikritið. Þetta var fyrsta "alvöru" leikritið sem ég lék í. Kennarinn okkar talaði við bekkinn og við komumst að þeirri niðurstöðu að setja upp Kardemommubæinn. Kennarinn okkar leikstýrði okkur og sá um leikprufurnar. En fyrst voru söngprufur. Ég ákvað að fara í þær, hafði sungið mikið heima og leit mikið upp til afa míns, Birgis Helgasonar, tónlistarkennara og tónskálds, á þessum  tíma - og geri enn. Það voru ekki margir sem fóru í söngprufurnar. Ég var eini strákurinn, svo voru örfáar stelpur. Þegar ég fór inn í stofuna þar sem söngprufurnar voru var ég pínu stressaður. Ég man að ég söng jólalag en man ekki alveg hvaða lag. Þegar byrjað var að spila á pínóið stressaðist ég upp og fór að titra. Svo byrjaði ég að syngja, stressið hvarf og mér leið miklu betur. Meðan ég söng fannst mér eins og ég væri að gera eitthvað rétt í fyrsta skipti, maður var búinn að vera í námi í tíu ár og í þessi tíu ár var ég aldrei að nenna því. En á þessu augnabliki fannst mér fyrst vera einhver tilgangur með þessu öllu saman. Þegar ég var búinn að syngja spurði ég hvernig þetta hefði gengið. Mér var hrósað og sagt að þetta hefði verið flott hjá mér. En nú var komið að leikprufunum. Ég var eins og alltaf, stressaður og hræddur um að þetta yrði ömurlegt hjá mér. Ég var látinn leika þrjár persónur, m.a. Bastían bæjarfógeta, sem mér fannst lang skemmtilegasta hlutverkið. Nokkrum dögum síðar var tilkynnt um hlutverkaskipan. Þegar mér var tjáð að ég yrði Bastían bæjarfógeti varð ég mjög sáttur. Við byrjuðum að æfa, mig minnir þrisvar í viku en síðan á hverjum degi þegar nær dró frumsýningu. Á þessum tímapunkti leið mér fyrst eins og alvöru leikara, ég var að leika stórt hlutverk með mikinn texta og söng - draumur í dós fyrir mig - sem þráir athygli. Sýningarnar hófust og fólki fannst mikið til koma. Við vorum með fjórar sýningar allt í allt og eftir hverja sýningu var okkur í leikhópnum hrósað og mér sem einstaklingi. Eftir þetta ævintýri var bakterían búin að taka sér bólfestu í mér.“

Og svo lá leiðin í VMA
„Eftir grunnskólann fór ég í Verkmenntaskólann. Ekki kannski vegna námsins, heldur fyrst og fremst vegna leikfélagsins í VMA. Ég gekk að sjálfsögðu til liðs við leikfélagið og við settum upp ágætis sýningu sem hét Tjaldið, eftir Hallgrím Helgasson. Þar var ég kannski ekki í stærsta hlutverkinu, en engu að síður fékk ég að opna sýninguna, syngja og koma fólki til að hlæja. Pétur og Jokka leikstýrðu okkur af stakri snilld. Ég blessunarlega kynntist þeim fljótt og vel og þegar Pétur kom upp að mér og sagði; „Sindri, þú átt framtíðina fyrir þér og ég ætla að gera eitthvað meira úr þér“, þá vissi ég að draumar mínir væru að rætast. Eftir Tjaldið fór ég í stutt „frí“. Að því loknu hóf ég að leika í Freyvangsleikhúsinu. Það var pínu öðruvísi, en á jákvæðan hátt. Lék  þar konu sem var að áreita pípara og pizzasendil, svo eitthvað sé nefnt.  Það voru ekki nema tvær sýningar en samt mjög gaman.“

Stefni á leiklistarnám
Líf Sindra hélt áfram sinn vanagang. Hann var í námi í VMA en hugur hans var oftar en ekki í félagslífinu í skólanum. „Bóknám er eitthvað sem hentar mér ekki og mörgum öðrum. Mér finnst mjög erfitt að sitja kyrr lengi og stara á bækur. Oft finn ég fyrir pínu vanlíðan og finnst þetta sóun á tíma. En takmarkið hjá mér er að ljúka stúdentsprófi því án þess kemst ég ekki í leiklistarnám eins  og ég hef lengi stefnt að. Ég er eins og er á félagsfræðabraut en það kann svo að fara að ég færi mig yfir á listnámsbrautina, en vonandi verður þetta bara ekki sagan endalausa.
Þegar ég kom hingað í VMA sextán ára gutti innritaðist ég á íþróttabraut og fann strax að hér væru afskaplega hæfir kennarar. Upplifun mín á skólanum almennt er mjög góð – ég á auðvelt með að kynnast fólki og hér er fullt af opnum og skemmtilegum nemendum og kennurum.
Ég kom hingað á íþróttabraut á sínum tíma vegna þess að ég hafði mikinn áhuga á íþróttum, æfði og spilaði handbolta og fótbolta með Þór. Það reyndar endaði með því að ég tætti upp krossbönd í fótbolta. Ég stefndi á að verða íþróttaþjálfari, en ég fann síðar að það ætti ekki við mig. Ég kláraði fyrsta árið á íþróttabrautinni en breytti síðan um kúrs.“

„Vá, þetta verður skrautlegt!“
„Sumarið 2013 fékk ég tvö verkefni, annað í Hrísey og hitt á Einni með öllu. Þessi verkefni voru mín fyrstu utan skóla. Ég man að þegar ég stóð á sviðinu í Hrísey, horfði á fólkið og hugsaði, "vá, þetta verður skrautlegt!". Það sama á Einni með öllu. Við vorum á risastóru sviði, tveir félagar með stóra drauma, það voru sirka 20 manns að horfa. Í fyrsta laginu gleymdi ég textanum, í öðru laginu datt ipadinn sem við vorum með en svo reyndar heppnaðist þriðja lagið ótrúlega vel.  Um áramótin fékk ég stærsta tækifæri lífs míns, að leika á stóra sviðinu í Hofi. Það voru Pétur og Jokka sem töluðu við mig um að koma í prufur. Ég gat ekki neitað því. Morguninn þegar prufurnar voru lá ég í rúminu mínu dauðþreyttur og hugsaði; „nei, ég nenni ekki að fara“, ég ætlaði að henda þessu stóra tækifæri frá mér. En sem betur fer hugsaði ég rökrétt, reif mig upp og fór í prufurnar. Þegar ég var kominn inn í Hof fékk ég númer, man reyndar ekki hvaða númer það var, en mér leið pínu eins og Idol-keppanda, stóð fyrir framan einhverja myndavél, skælbrosandi með A4-blað. Ég og vinir mínir sem komu með mér biðum í sirka 3 klst. Svo þegar var loksins komið að mér fóru þau í pásu, þurftu örugglega að undirbúa sig extra mikið fyrir mig. Loksins fékk ég að koma inn. Þetta var mjög skrítið, ég þekkti helminginn af þessu fólki sem var að fara að "dæma" mig. Pétur var búinn að segja við mig að standa beinn í baki og vera öruggur, sem ég var. Ég var fullur af stolti. Ég fór inn, beinn í baki og með bros á vör, tók fast í höndina á Ívari leikstjóra, stóð á miðju gólfinu, og söng Run með Snow patrol, náði reyndar að klúðra textanum en það var svo sem allt í lagi. Þegar þetta var að baki var mér boðið strax í dansprufur. Þau spurðu mig hvort ég kynni að dansa og auðvitað sagði ég já. Enda gat ekkert stoppað mig í þessu stuði sem ég var kominn í. Um kvöldið fór ég í dansprufur, það reyndar létti á mér þegar ég frétti að þetta væri hópdans en ekki einstaklingsdans. Eftir þrjár vikur sendu þau mér tölvupóst um að ég hafi farið í gegnum úrtakið og ætti að koma í prufur fyrir þrjár persónur. Ég var náttúrlega mjög sáttur og fór í þessar prufur. Þegar ég var kominn á staðinn varð ég pínu stressaður. Þarna voru þau öll að fylgjast með mér og dæma mig. Ég var samt sem áður mjög sáttur með frammistöðu mína og var frekar viss um að ég fengi hlutverk. Svo á sunnudegi fékk ég símtal frá Jokku um að koma á fund með þeim daginn eftir. Ég fékk pínu hnút í magann, varð eiginlega pínu hræddur. Ég fór á þennan fund. Það var mjög þrungið andrúmsloft þarna inni, eins og einhver væri að deyja. Þau horfðu á mig í stutta stund. Svitinn spratt út á mér. Svo kom stóri dómurinn. Ívar leikstjóri tjáði mér að ég hefði ekki fengið hlutverk. Mig langaði að öskra og rjúka út, búinn að vera að vera í prufum alla vikuna og mikill tími farinn í þetta. En síðan bar Ívar undir mig þá hugmynd um að ég yrði svokallað "swing". Ég vissi ekkert hvað það var. Ég sagði þeim að ég þyrfti að hugsa þetta nánar og ætlaði að svara þeim daginn eftir. Auðvitað var já-ið alltaf í hausnum á mér, ég vildi bara láta þau bíða aðeins og kannski hugsa þetta nánar. Svo fékk ég símtal frá Pétri um kvöldið. Hann kynnti mér þetta nánar. Ég sagði honum í trúnaði að ég ætlaði að vera með en ætlaði að koma fram með svarið opinberlega á morgun. Honum leist mjög vel á það. Ég hringdi svo daginn eftir og sagði þeim að ég ætlaði að taka þessu hlutverki. Það eru ekki allir sem fara í prufur fyrir þrjú hlutverk og fá síðan fimm! Tuma- tímalausa ferlið var langt og skemmtilegt. Ég mætti á allar æfingar og hafði alltaf gaman að, enda er þetta það sem ég vil gera í lífinu. Álfheimar var eitthvað sem ég var "fastur í" sirka þrjá mánuði. Það var bara gaman. Ég fékk að njóta mín eina sýningu sem Bokki búálfur, sem er stærsta hlutverkið samhliða Tuma. Það var ótrúlegt að fá þetta tækifæri, alveg magnað. Þó svo að sýningarnar séu búnar þá er þetta ennþá í fullu gangi. Ég t.d. fékk að leika Bokka á Minjasafninu og svo aftur á 17. júní.“

Útvarpsstjóri í VMA-útvarpinu
Eitt kallar á annað.  „Á sama tíma og ég var að leika í Tuma tímalausa var ég ráðinn útvarpsstjóri í VMA-útvarpinu sem er áhugamannaútvarp á hraðri uppleið. Sjálfur var ég að stíga mín fyrstu skref í útvarpi. Þetta útvarp er gott fyrir þá sem vilja tækifæri, fín aðstaða sem við höfum, mætti reyndar laga símakerfið og vera með loftkælingu en annars er þetta gott. Ég var ásamt félaga mínum með þáttinn Seiður á föstudögum. Útvarp er viss baktería, þegar maður er byrjaður þá getur maður ekki hætt. Maður finnur það strax að þetta er mjög mikið tengt leiklist. Maður er einhver sérstakur karakter í útvarpinu og fær að tjá sig eins og í leiklist, nema bara á allt annan hátt. Ég elska að tjá mig og fá athygli, það er bara þannig og verður alltaf.“
Sindri Snær er í stjórn Yggdrasils – leikfélags VMA – sem mun setja á svið 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason, eins og greint var frá hér á heimasíðunni í síðustu viku. Leiklistin víkur því ekki langt frá honum á næstu vikum. „Ég mun síðan taka þátt í uppfærslu Freyvangsleikhússins á Fiðlaranum á þakinu í janúar. Það verður því nóg að gera á næstunni,“ segir Sindri Snær Konráðsson.