Fara í efni

Flottir í tauinu í kvikmyndagerðinni!

Strákarnir úr Naustaskóla flottir í tauinu!
Strákarnir úr Naustaskóla flottir í tauinu!

Hér á árum áður þótti ekki tiltökumál að stúlkur og piltar klæddust sínu fínasta pússi í framhaldsskólanum. Strákar klæddir í jakka og með bindi og stúlkur í kjólum. En nú er öldin önnur og fatnaður unga fólksins er frjálslegri á allan hátt.
Því vakti athygli á dögunum þegar þrír ungir piltar, Guðjón Elí Ingvarsson, Þórður Aðalsteinn Jóhannesson og Daníel Freyr Stefánsson, sáust á göngum VMA í jakkafötum og með bindi og slaufu. Við nánari eftirgrennslan reyndust þetta vera tíundu bekkingar úr Naustaskóla á Akureyri að skoða skólann og klæðnaðurinn er vinnufatnaður í lokaverkefni þeirra þremenninga í samfélagsfræði í Naustaskóla. Viðfangsefnið er tíundi áratugur síðustu aldar og þeir ákváðu að gera myndband um Akureyri á þeim tíma.

„Við vildum bara setja smá metnað í þetta, að reyna að fá góða einkunn og gera kennarann stoltan. Við áttum að gera eitthvað sem tengdist tíunda áratugnum og við ákváðum að gera stuttmynd. Við erum búnir að taka viðtöl við Baldvin Sigurðsson veitingamann á Akureyrarflugvelli, Hauk Tryggvason á Græna hattinum, séra Svavar Alfreð Jónsson og Jakob Björnsson fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri.  Núna erum við komnir með meira en klukkutíma af óklipptum viðtölum. Okkur langaði að vita meira um bæinn okkar því við vorum auðvitað ekki fæddir á þessum tíma og okkur finnst við hafa lært alveg helling í þessari vinnu,“ segja þeir.

Strákarnir útskrifast úr Naustaskóla í vor og þá segja þeir að leiðin liggi í framhaldsskóla – bæði í VMA og MA.

En hvað gerir það að verkum að þessir verðandi framhaldsskólanemar ganga um svona flottir í tauinu? „Við ákváðum að vera alltaf í jakkafötum þegar við værum í upptökunum en þess utan erum við bara í okkar daglega fatnaði,“ segja Guðjón Elí, Þórður Aðalsteinn og Daníel Freyr.