Fara í efni

Færði VMA listaverk að gjöf

Sigríður Huld skólameistari og Ioanna Borysova.
Sigríður Huld skólameistari og Ioanna Borysova.

Ioanna Borysova, sem flúði heimaland sitt, Úkraínu, á síðasta ári í kjölfar innrásar Rússa og hefur stundað nám í vetur í VMA, færði skólanum að gjöf í gær listaverk, forkunnarfagra útfærslu hennar á íslenska fánanum. Verkinu veitti Sigríður Huld skólameistari viðtöku fyrir hönd skólans og þakkaði fyrir þessa fallegu gjöf. Myndinni verður fundinn staður í skólanum.

Verkið hefur Ioanna unnið með úkraínskri málunartækni, sem nefnist Petrykivka. Til þess að ná fram þessari fíngerðu áferð notaði Ioanna pensla sem hún hefur búið til úr kattahárum. Petrykivka málaralistin á uppruna sinn í samnefndu þorpi, Petrykivka í Dnipropetrovsk í austurhluta Úkraínu.

Hér er frekari umfjöllun um listsköpun Ioönnu.

Með gjöfinni vill Ioanna þakka VMA fyrir hlýhug og stuðning og allt það sem skólinn og starfsfólk hans hafi gert fyrir hana í vetur. Ioanna er ákveðin í að halda áfram námi við VMA á næsta skólaári.