Fara í efni

Menningar- og fræðsluferð í höfuðborgina

Flottur hópur sem heimsótti höfuðborgina.
Flottur hópur sem heimsótti höfuðborgina.

„Alls staðar var vel tekið á móti okkur og fengu nemendur svör við ýmsum spurningum sem á þeim brunnu og voru skólanum til sóma í einu og öllu í ferðinni sem var hin skemmtilegasta,“ segir Hallgrímur Ingólfsson, einn þriggja kennara af listnáms- og hönnunarbraut VMA sem fóru með um þrjátíu nemendum á 2. og 3. ári brautarinnar í menningar- og fræðsluferð til Reykjavíkur í síðustu viku. Lagt var af stað í rútu frá Akureyri að morgni sunnudagsins 19. mars og komið heim síðla þriðjudagskvölds 21. mars. Auk Hallgríms Ingólfssonar voru með hópnum kennararnir Sólveig Þóra Jónsdótttir og Véronique Legros.

Þegar komið var suður sunnudaginn 19. mars var farið rakleiðis í Marshall-húsið og skoðaðar sýningar í Nýlistasafninu / Kling & Bang. Síðan var haldið í náttstað á Farfuglaheimilinu í Laugardal þar sem gist var í þessar tvær nætur.

Mánudagurinn 20. mars var þéttskipaður. Fyrst lá leiðin í Tækniskólann þar sem nemendur fengu kynningu á fataiðn, silfur-/gullsmíði, stafrænni hönnun og grafískri miðlun. Síðan lá leiðin í Ásmundarsafn og eftir hádegi var Listaháskólinn sóttur heim, bæði í Þverholti þar sem hönnun/arkitektúr er til húsa og einnig í Laugarnesið þar sem er aðsetur kennslu í myndlist og sviðslistum.

Þriðjudaginn 21. mars hóf hópurinn á að heimsækja Myndlistaskólann í Reykjavík í JL-húsinu við Hringbraut en síðan lá leiðin í Hafnarhúsið þar sem skoðaðar voru fjölbreyttar sýningar. Eftir hádegi var Kvikmyndaskólinn við Suðurlandsbraut sóttur heim og á leið út úr bænum var kíkt á Korpúlfsstaði og skoðuð sýning Þórs Vigfússonar, Rúríar og Níelsar Hafstein. Rúrí og Þór voru á staðnum og leiddu VMA-nemendur og kennara í gegnum sýninguna, sem var mjög fróðlegt og áhrifamikið. 

Hallgrímur Ingólfsson sagði að ferðin hafi gengið mjög vel og vill hann koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku á móti hópnum og gáfu sér tíma til þess að segja frá og fræða. Ánægjulegt hafi verið að hitta fyrrum nemendur VMA í bæði Myndlistaskólanum í Reykjavík og Listaháskólanum. Hallgrímur segir slíkar ferðir mikils virði fyrir bæði nemendur og kennara, þær veiti innblástur og víkki út sjóndeildarhringinn. Slíkt sé í senn nauðsynlegt, gefandi og gott.