Fara í efni

Hrifnæmi í þriðjudagsfyrirlestri

Agnes Ársæls andar að sér ilmi trjálaufanna.
Agnes Ársæls andar að sér ilmi trjálaufanna.

Í dag, þriðjudaginn 7. janúar kl. 17-17.40, heldur myndlistarkonan Agnes Ársæls þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Að rækta hrifnæmið. Þar fjallar Agnes um ferli og vinnuaðferðir í eigin listsköpun í tengslum við valin verk. Einnig mun hún ræða reynslu sína af samstarfi við aðra listamenn og mikilvægi þess að hrífast í daglegu lífi. 

Agnes Ársæls vinnur og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2018 og stundar nú mastersnám í sýningarstjórnun við Háskóla Íslands. Verk Agnesar hafa verið sýnd á Íslandi og erlendis. Meðal nýlegra sýninga má nefna Spor og Þræðir í Listasafni Reykjavíkur, Sequences X sem meðlimur listasamsteypunnar Ræktin, Óskilamunir í Midpunkt og In Context: Compost í In Context vinnustofudvölinni í Slanic-Moldova. 

Að þriðjudagsfyrirlestrunum standa Listasafnið á Akureyri, VMA, Gilfélagið, MA, og Myndlistarfélagið á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.