Fara í efni

Áhugasamir og skemmtilegir krakkar

Saga Geirdal Jónsdóttir, leikstjóri Bót og betrun.
Saga Geirdal Jónsdóttir, leikstjóri Bót og betrun.

Það styttist í frumsýningu. Föstudagskvöldið 3. febrúar nk. verða ljósin slökkt í Gryfjunni og sviðsljósin tendruð – frumsýning Leikfélags VMA á farsanum Bót og betrun eftir Michael Cooney. Leikstjóri er Saga Geirdal Jónsdóttir.

Fyrirkomulag æfinga á verkefni vetrarins hefur verið á sömu nótum og undanfarin ár. Æfingar hófust í október og var æft til loka haustannar. Þráðurinn var síðan tekinn upp núna eftir áramótin og það verður ekki slegið slöku við í æfingum þá tíu daga sem eru fram að frumsýningu.

Saga Geirdal Jónsdóttir er heldur betur reynd í leiklistinni. Hún steig fyrst á fjalirnar hjá Leikfélagi Akureyrar sautján ára gömul og því spannar ferillinn á sjötta tug ára. Seinna fór hún að leikstýra og segist hafa leikstýrt sem næst fjörutíu sýningum, bæði í atvinnuleikhúsi og hjá áhugaleikfélögum. En þetta er í fyrsta skipti, segir Saga, sem hún setur upp sýningu með framhaldsskólanemum.

„Það er mikill vandi að leika farsa og það kallar á ákveðinn hraða og að tímasetningarnar séu réttar. Þetta er heilmikil áskorun fyrir krakkana og skemmtileg glíma. Æfingatíminn hefur verið lengri en ég á að venjast, frá því í október. Vegna þessa langa æfingatíma hafði ég svolitlar áhyggjur af því að þau yrðu svolítið leið á þessu, því þetta er auðvitað heilmikil viðbót við námið og sumir vinna með skólanum. Þannig að þetta hefur oft verið heilmikið púsluspil. En ég finn ekki að þau séu leið, þvert á móti hefur þetta verið mjög gaman og krakkarnir hafa verið áhugasamir og skemmtilegir. Þegar tíu dagar eru í frumsýningu finnst mér þetta vera komið á ágætis stað en það á samt ennþá heilmikið eftir að gerast, það verða alltaf svo miklir töfrar á síðustu metrunum,“ segir Saga leikstjóri.

Miðasalan er komin í fullan gang á Tix.is. Fjórar sýningar eru í sölu – frumsýning 3. febrúar, 2. sýning 4. febrúar, 3. sýning 10. febrúar og 4. sýning 11. febrúar. Allar sýningar hefjast kl. 20:00 í Gryfjunni í VMA.