Fara í efni

Sjúkraliðanemi og varaformaður

Sara Dögg Sigmundsdóttir, varaformaður Þórdunu.
Sara Dögg Sigmundsdóttir, varaformaður Þórdunu.

Þegar Sara Dögg Sigmundsdóttir hóf sjúkraliðanám í VMA haustið 2020 sá hún ekki fyrir að tæpum tveimur árum síðar væri hún, til hliðar við námið, orðin varaformaður nemendafélagsins Þórdunu. En það varð nú samt raunin. Óvæntustu hlutirnir eru alltaf skemmtilegastir og þrátt fyrir að félagslífið sé dágóð viðbót við fullt nám sér hún ekki eftir því að hafa tekið þetta skref, enda sé lærdómsríkt og þroskandi að vinna að félagsmálum í þágu skólans og nemenda.

Að loknum Síðuskóla á Akureyri ákvað Sara Dðgg að fara í sjúkraliðann í VMA. Það var kannski ekkert alveg borðleggjandi á þeim tíma en Sara segist hafa haft löngun til þess að fara í nám sem væri í senn verklegt og bóklegt. Sjúkraliðanámið uppfyllti þær væntingar. Nú er hún komin á þriðja árið í náminu og líkar vel. Þetta sé nám sem muni á allan hátt nýtast vel í framtíðinni, hvort sem hún starfi sem sjúkraliði eða haldi áfram í námi í heilbrigðisgeiranum í mögulega hjúkrunarfræði eða læknisfræði. Sjúkraliðanámið hafi vakið áhuga og opnað dyr. Stefnan er tekin á brautskráningu frá VMA að rúmi ári liðnu, um jólin 2023. Þá tekur við nýr kafli.

Auk bóklegs náms í VMA eru sjúkraliðanemar í verknámi. Á vorönn 2022 segist Sara Dögg hafa verið í þrjár vikur í verknámi á öldrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri og í september sl. var hún í aðrar þrjár vikur í verknámi á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, sem hún segir að hafi verið sérlega skemmtilegur og áhugaverður tími. „Næsta sumar verð ég síðan að vinna sem sjúkraliðanemi, sem er hluti af náminu. Ég gæti alveg hugsað mér að vinna aftur á skurðlækningadeildinni, það var mjög fjölbreytt og skemmtilegt og margt að læra,“ segir Sara Dögg.

Það var tilviljun háð að Sara Dögg hellti sér í félagslífið í VMA með því að gefa kost á sér í stjórn nemendafélagsins Þórdunu, þar sem hún er varaformaður. Hún segist ekki hafa starfað í félagsmálum í grunnskóla, en óvæntir hlutir gerast og nú er Sara í tíu manna stjórn Þórdunu og þar er í mörg horn að líta. Hún segir að vart líði sá dagur að ekki sé eitthvað í gangi sem þurfi að sinna. Stjórnin hafi fasta fundi á hverjum þriðjudegi og þess á milli sé stjórnarfólk í daglegu sambandi til að vinna að þeim málum sem eru í gangi á hverjum tíma. Núna beinast allir kraftar Þórdunu að því að gera Sturtuhausinn – söngkeppni VMA, sem verður nk. fimmtudagskvöld í Gryfjunni, eins glæsilegan og mögulegt er. Síðan tekur við undirbúningur fyrir ball sem Þórduna stefnir að því að halda í lok nóvember. Þá verður stutt í jólafríið en á vorönn verður stóra málið árshátíð nemenda og auðvitað einnig uppfærsla Leikfélags VMA á Bót og betrun.

„Það er mikil og góð reynsla að vera í stjórn Þórdunu og þetta er mjög gaman – en vissulega töluvert mikil vinna. Ég sé alls ekki eftir því að hafa gefið kost á mér í þetta og svo lítur ágætlega út í ferilskránni að hafa tekið þátt í þessu,“ segir Sara Dögg og brosir.