Fara í efni

Fróðlegur fyrirlestur um Akureyrarflugvöll

Hjördís flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli.
Hjördís flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli.

Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri innanlandsflugvalla ISAVIA og flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, flutti fróðlegt erindi í M01 í VMA í gær, þar sem hún ræddi um hlutverk flugvallarins og fjölbreytt verkefni hans, en eins og hefur komið fram er unnið að því að stækka bæði flughlaðið og flugstöðina. Fyrirlesturinn sóttu nemendur og kennarar af náttúrufræðiubraut, úr rafeindavirkjun, byggingadeild, vélstjórn og rafvirkjun.

Isavia ohf. og dótturfélögin Isavia ANS ehf og Isavia innanlandsflugvellir ehf annast rekstur og uppbyggingu flugvalla á Íslandi, þar á meðal Akureyrarflugvallar. Völlurinn á sér langa sögu, hann var tekinn í notkun 5. desember 1954 og er því orðinn 68 ára gamall. Flugsaga Akureyrar er hins vegar mun lengri því lengi var flugvöllur á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Starfsemi Akureyrarflugvallar hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Auk flugs Icelandair til Reykjavíkur er Mýflug þar með miðstöð fyrir sjúkraflug og Norlandair er með áætlunarflug til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar auk flugs á Grænlandi. Þá er einkaflugið vaxandi þáttur og það sama má segja um flug tengt vaxandi þyrluskíðamennsku seinnipart vetrar í Eyjafirði. Að ógleymdu millilandafluginu sem hefur vaxið mjög síðustu ár. Mikill vöxtur varð með tilkomu Niceair sem flýgur nú áætlunarflug til Kaupmannahafnar og Tenerife og stefnir á fleiri áfangastaði á næsta ári. Frá 2019 hefur Transavia/Voight verið með leiguflug frá Amsterdam til Akureyrar hluta úr ári og í maí á næsta bætist í millilandaflugsflóruna þegar Condor hefur áætlunarflug á laugardögum til Akureyrar frá Frankfurt í Þýskalandi.

Það segir sitt um aukna umferð um Akureyrarflugvöll að á síðasta ári voru farþegar um völlinn rétt um 140 þúsund en fyrstu níu mánuði þessa árs nemur aukningin 42%. Skýringin á þessu er fyrst og fremst flug Niceair sem hóf starfsemi á árinu. Allt þýðir þetta aukinn fjölda starfsmanna á Akureyrarflugvelli og aukna umsetningu. Þegar allt er talið, starfsemi Akureyrarflugvallar og önnur flugtengd starfsemi á vallarsvæðinu, má ætla að heildarfjöldi starfsmanna sé sem næst 100 manns og að óbreyttu á þessi tala bara eftir að hækka, því allt bendir til fjölgunar erlendra ferðamanna á Akureyri á næstu árum eins og annars staðar á landinu. 

Ríkið er eigandi Akureyrarflugvallar og því taka allar framkvæmdir á vellinum mið af fjárveitingum frá Alþingi. Árið 2009 var flugbrautin lengd í 2400 m til að taka á móti stórum þotum, einnig var settur upp aðflugsbúnaður og ljósabúnaður endurnýjaður. Suðurhluti flughlaðsins var síðan styrktur árið 2012. Hjördís sagði í fyrirlestrinum í gær að Akureyrarflugvöllur væri sannarlega kominn að þolmörkum og á stórum dögum, þegar millilandaflugið og innanlandsflugið er á sama tíma á Akureyrarflugvelli, þurfi að nýta bráðabirgðagáma, sem hefur verið komið fyrir sunnan við flugstöðina.

Á síðustu misserum hefur verið unnið að langþráðum framkvæmdum við stækkun flughlaðsins við flugstöðina og einnig eru hafnar framkvæmdir við viðbyggingu við flugstöðina. Þetta mun gjörbreyta allri aðstöðu brottfarar- og komufarþega og starfsfólks. Hjördís segir þó alveg ljóst, miðað við allar spár, að þann dag sem nýja flugstöðvarbyggingin verði tekin í notkun að tæpum tveimur árum liðnum verði hún of lítil. Gert sé ráð fyrir þeim möguleika að stækka bygginguna áfram í vestur.

Þröngt er um starfsemi flugsins á Akureyrarflugvelli eins og er en staðan verður mun betri þegar þeim framkvæmdum sem núna er í fullum gangi lýkur. Hjördís segir að áhugi sé á frekari uppbyggingu flugtengdrar starfsemi á svæðinu en engar lóðir séu eins og er til úthlutunar. Að endurskoðun skipulags sé hins vegar unnið núna og því er þess vænst að úr rætist áður en langt um líður.

Tækninni í fluginu fleygir fram eins og í öðrum atvinnugreinum. Hjördís nefndi að unnið hafi verið að þróunarverkefni um aðflug að vellinum úr suðri. Þróunin sé hröð og fyrir Akureyrarflugvöll, eins og aðra flugvelli í heiminum, sé gervihnattaaðflug framtíðin fyrir Akureyrarflugvöll.

Fyrirlestur Hjördísar var fjölsóttur og mjög áhugaverður og fjöldi spurninga vaknaði um málefni flugvallarins. Hjördís var afdráttarlaus þegar hún var spurð um gagnrýni sem oft heyrist um að ekki sé rétt að byggja upp Akureyrarflugvöll vegna m.a. þröngs fjarðar og erfiðra lendingarskilyrða. Hún segir að tvímælalaust eigi að halda áfram á þeirri braut að byggja upp flugvöllinn, fjárfesting í honum sé nú þegar mikil og mikilvægt sé að halda áfram á þeirri braut, enda völlurinn varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar. Mikilvægt sé að hafa í huga styrk flugvallarins af því að hafa stærsta þéttbýli á landsbyggðinni í næsta nágrenni vallarins. Þetta skipti gríðarlega miklu máli í markaðssetningu vallarins í útlöndum, en að henni hefur verið markvisst unnið í mörg undanfarin ár.