Fara í efni

Þetta gerir mig hamingjusama

Margrét með þátttakendum á snyrtinámskeiði í VMA
Margrét með þátttakendum á snyrtinámskeiði í VMA

Eins og vera ber eru kennarar VMA hæfileikaríkir og áhugasvið þeirra eru jafn fjölbreytt og þeir eru margir. Margrét Bergmann Tómsdóttir kennari við VMA útskrifaðist í ágúst sl. sem förðunarfræðingur frá Reykjavík Makeup School.

Margrét segir að hún hafi lengi haft áhuga á förðun og loks hafi hún ákveðið að láta verða af því að skrá sig í förðunarnám. Það stundaði hún sl. sumar í Reykjavík og lauk því í síðasta mánuði, sem fyrr segir.

„Ég hef haft áhuga á förðun frá unglingsaldri og farðaði gjarnan vinkonur mínar þegar við vorum að fara að skemmta okkur. Á sínum tíma velti ég fyrir mér snyrtinámi í London og var búin að fá vilyrði fyrir því að komast á samning á snyrtistofu hér í bæ um 17 ára aldurinn þegar ég skipti snarlega um skoðun, fór í menntaskóla og síðan í Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist ég 1996 og meistaraprófi lauk ég síðan í sérkennslufræðum frá HA árið 2018. Ég hef lengi unnið með fötluðum og hef haft af því mikla ánægju. Gamli draumurinn um að læra snyrtifræði hvarf þó ekki alveg, en erfitt var að koma honum í framkvæmd meðfram fjölskyldulífi þar sem ekki var boðið upp á slíkt nám hér í bæ. Nú eru börnin mín orðin fullorðin og þegar ég sá þetta nám auglýst hjá Reykjavík Makeup School ákvað ég að slá til. Þetta er venjulega 8 vikna nám en sl. sumar var boðið upp á hraðferð, tæplega 5 vikna sumarnámskeið, og ég sá fram á að nú væri þetta möguleiki. Svo ég skellti mér til Reykjavíkur í sumar og sé sko ekki eftir því,“ segir Margrét.

Hún segist hafa verið mjög ánægð með námið í förðunarfræðinni, sem bæði var bóklegt og verklegt. Í því voru sextán konur á aldrinum 16 til 53 ára.

„Í náminu lærir maður m.a. um húðgerðir, umhirðu húðar, grunn í litgreiningu og fær kynningu á ýmsum snyrtivörumerkjum. Við fengum sýnikennslu í mismunandi förðunum eins og smokeyförðun, beutyförðun, glam og halo. Einnig dragförðun og kvikmyndaförðun (special effects). Síðan voru verklegir módeltímar þar sem við áttum að farða módel. Í lokaverkefninu var okkur falið að vinna með ákveðnar farðanir og hanna ákveðið útlit og síðan komu atvinnuljósmyndarar og mynduðu.“

Margrét segist hafa séð tækifæri í því að sameina förðunarnámið og kennslureynsluna með því að bjóða upp á förðunarnámskeið. „Ég býðst til að koma til hópa, á vinnustaði eða í heimahús,“ segir Margrét en þessar myndir voru teknar í síðustu viku þegar hún efndi til snyrtinámskeiðs með vinnufélögum sínum í VMA.

„Ég er búin að koma mér upp förðunarvörum fyrir allt að 10 manna hópa, er þegar búin að halda námskeið og nokkur eru í farvatninu. Einnig hef ég fengið töluvert af fyrirspurnum, enda eru allir til í að gera eitthvað skemmtilegt eftir covid. Ég er með ýmsar hugmyndir, t.d að bjóða upp á förðunarnámskeið fyrir fólk með fötlun og mig langar til að nýta þetta nám í kennslunni hér í VMA. Ég er að þessu vegna þess að þetta gerir mig hamingjusama!“ segir Margrét Bergmann Tómasdóttir.