Fara í efni

Áhugaverð verkefni kvöldskólanema í húsasmíði

Nemendur segja frá uppbyggingu timburveggs.
Nemendur segja frá uppbyggingu timburveggs.

Í vetur hafa fimmtán nemendur stundað nám í húsasmíði í kvöldskóla í VMA. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er gert og segist Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar, ánægður með hvernig til hafi tekist. Í gær var uppskerutími í lok vorannar þegar nemendur kynntu verkefni sem þeir hafa verið að vinna að á önninni. Nemendurnir, sem allir starfa í faginu, halda síðan áfram námi sínu næsta haust og ljúka því vorið 2023.

Nemendur kynntu í gær verkefni sín í tveimur áföngum, annars vegar Burðarvirki timburhúsa og hins vegar Útveggjaklæðningar. Í síðarnefnda áfanganum skoðuðu nemendur timburhús af ýmsum toga og öfluðu upplýsinga sem þeir skiluðu síðan í skýrsluformi og kynntu í máli og myndum í gær.

Í áfanganum Burðarvirki timburhúsa byggðu nemendur sjö timburveggi og einn „gervi“ steyptan vegg. Veggirnir voru allar mismunandi uppbyggðir en stærð þeirra er 100 x 64,5 cm. Nemendur gerðu kostnaðarmat á veggjunum og þeir voru vigtaðir til þess að fá samanburð.

Birgjarnir Redder og Siga lögðu til ýmsar vörur í smíði veggjanna, t.d. dúka, teip, kítti o.fl.

„Við lögðum upp með það að þessir veggir yrðu síðan notaðir í kennslu hérna á deildinni fyrir aðra nemendur. Það verður allt annað og betra fyrir okkur kennarana að geta sýnt nemendum þessa veggi og uppbyggingu þeirra í stað þess að reyna að útskýra þetta út frá myndum eða glærum. Að hafa uppbyggingu á einum svona vegg fyrir framan sig sýnir svart á hvítu hvað þetta er margslungið og flókið. Við fundum út að í einum af þessum veggjum eru 29 vörunúmer. Við munum síðan smíða vagn sem við setjum þessi veggsýnishorn á til þess að geta farið með inn í kennslustofur og sýnt nemendum,“ segir Helgi.

Núna á vorönn hafa kvöldskólanemarnir einnig unnið að því að smíða 20 fermetra sumarhús. Helgi Valur segir þetta verkefni hafa verið unnið í samstarfi við Byko, fyrirtækið hafi lagt til allt efni og eigi því húsið en nemendurnir hafi smíðað. Hitt sumarhúsið norðan við húsakynni byggingadeildar hafa nemendur á öðru ári í húsasmíði í dagskóla smíðað í vetur. Eins og venja er til verður húsið boðið til sölu í sumar á því byggingarstigi sem það verður þá.

Helgi Valur segist ánægður með hvernig til hefur tekist í náminu í vetur. „Já, ég held að það séu allir glaðir með þetta. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem við erum með kvöldskólanám höfum við verið að þróa það smám saman. Vissulega hefur covid skekkt myndina í vetur og forföll hafa verið meiri en venja er til vegna covid-smita en engu að síður hefur þetta gengið vel og nemendur hafa verið sérlega áhugasamir,“ segir Helgi brautarstjóri.