Fara í efni

Óttast ekki verkefnaskort

Þröstur hefur kennt við VMA frá stofnun skólans.
Þröstur hefur kennt við VMA frá stofnun skólans.

Á sumardaginn fyrsta var tilkynnt að Þröstur Ásmundsson, sögu- og heimspekikennari við VMA, hafi hlotið heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar 2022 fyrir framlag hans til menningarmála á Akureyri á síðustu áratugum. Þröstur sat í menningarmálanefnd Akureyrarbæjar í samtals tólf ár, þar af átta ár sem formaður, 1990-1994 og aftur 1998-2002.

Í umsögn um heiðursviðurkenninguna kemur fram að Þröstur hafi m.a. gegnt formennsku í safnráði Listasafnsins á Akureyri, verið formaður stjórnar Minjasafnsins á Akureyri, fulltrúi Akureyrarbæjar í leikhúsráði Leikfélags Akureyrar, formaður Aldamótanefndar Akureyrarbæjar 1999-2000, setið í starfshópi Akureyrarbæjar um kaup á húseignum KEA í Grófargili, sem síðar voru nýttar til hverskyns listsköpunar og sýningarhalds, verið formaður Gilnefndar Akureyrarbæjar og Gilfélagsins og verið í starfshópi Akureyrarbæjar um byggingu Menningarhússins Hofs.

Eins og þessi upptalning ber með sér hefur hjarta Þrastar slegið með menningarmálum á Akureyri á liðnum árum. Hann rifjar upp að hann hafi unnið að bæjarmálum á Akureyri í sextán ár, þar af verið, sem fyrr segir, í menningarmálanefnd í tólf ár. Hann var í nokkur ár varafulltrúi í bæjarstjórn Akureyrar og sat fjölmarga bæjarstjórnarfundi.

Að loknu stúdentsprófi frá MA 1973 nam Þröstur sögu og heimspeki í Þýskalandi. Allan sinn starfsferil hefur hann verið við kennslu, lengst í VMA eða frá stofnun skólans árið 1984. Áður hafði hann kennt nemendum framhaldsdeildar Gagnfræðaskólans á Akureyri og í eitt ár í Oddeyrarskóla. Fyrstu þrjú starfsár Háskólans á Akureyri var hann stundakennari við skólann. 

En VMA hefur verið vinnustaður Þrastar bróðurpart hans starfsferils, þar sem hann hefur kennt sögu og heimspeki 38 ár. Við lok þessa skólaárs hyggst Þröstur setja amen á eftir efninu og hætta kennslu. Hann verður sjötugur 26. maí nk., daginn eftir vorbrautskráningu VMA. „Mér hefur aldrei leiðst í kennslunni en ég er mjög ánægður með að hætta núna, þetta er orðið gott,“ segir Þröstur.

Þrátt fyrir þennan langa tíma hefur Þröstur aldrei verið í stjórnunarstöðu í VMA, að því frátöldu að hann var um tíma fagstjóri félagsgreina, hann segist ekki hafa sóst eftir sjórnunarstöðu enda heilli skrifstofuvinna sig ekki. Kennslan hafi verið meira heillandi.

Eitt og annað kemur upp í hugann þegar Þröstur er spurður um allan þennan langa kennsluferil. Nærtækast segir hann að nefna Covid-tímann sem hafi verið erfiður og tekið á. Eitt og annað hafi auðvitað breyst á þessum tæpu fjörutíu árum, sumar breytingarnar hafi verið til góðs en aðrar ekki. Þröstur telur t.d. það hafa verið ranga ákvörðun yfirstjórnar menntamála í landinu að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Spá sín sé sú að það eigi eftir að koma betur og betur í ljós.

Sem að framan greinir hefur Þröstur komið að stórum ákvörðunum í menningarmálum á Akureyri. Þær stærstu og sem hann sé mjög stoltur að hafa komið að nefnir hann kaup Akureyrarbær á eignum KEA í Grófargili sem lagði grunn að Listagilinu og allri þeirri fjölbreyttu listsköpun sem þar er og hefur verið síðustu áratugina. Hitt stóra málið er ákvörðun um byggingu Menningarhússins Hofs sem óhætt er að fullyrða að hefur valdið straumhvörfum í menningarmálum í bænum.

En hvað tekur við hjá Þresti þegar kennsluferlinum lýkur í maí? Hann segist ekki óttast verkefnaskort. Rýmri tími muni nú gefast til þess m.a. að vinna að þýðingum en til fjölda ára hefur hann þýtt heimspekirit eftir Nietzsche, Schiller og Hegel og kennslubækur um heimspeki. „Ætli ég skelli mér ekki bara í Akureyrarakademíuna og sitji þar við fræðistörf,“ segir Þröstur en þar hefur eiginkona hans, Aðalheiður Steingrímsdóttir, haft athvarf síðustu misseri til fræðimennsku, auk þess að vera framkvæmdastjóri akademíunnar. Aðalheiður kenndi lengi við VMA en var síðan formaður Félags framhaldsskólakennara og varaformaður KÍ.