Fara í efni

Brunagaddur í þriðjudagsfyrirlestri

Þórður Sævar Jónsson.
Þórður Sævar Jónsson.

Í dag, þriðjudaginn 12. október kl. 17-17.40, heldur Þórður Sævar Jónsson, skáld, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Brunagaddur og Brautigan. Þórður Sævar les úr ljóðabók sinni Brunagaddur, sem kom út fyrr á þessu ári og fjallar um hans fyrsta vetur á Akureyri í 22 ár, og segir frá tilurð ljóðanna. Einnig les hann úr tveimur þýðingum sínum á verkum bandaríska rithöfundarins Richard Brautigan, ljóðabókinni 30sti júní/30sti júní og skáldsögunni Willard og keilubikararnir hans, og ræða um höfundinn og verkin. 

Þórður Sævar Jónsson er Akureyringur, fæddur 1989. Fyrir Vellankötlu, sína fyrstu ljóðabók í fullri lengd, fékk Þórður tilnefningu til Maístjörnunnar. Einnig hefur hann gefið út kverin Blágil og 49 kílómetrar er uppáhalds vegalengdin mín, auk þýðinga úr ensku eftir Richard Brautigan og grísku eftir Lúkíanos frá Samsóta. 

Hér er umfjöllun RÚV um Þórð Sævar og hér er umfjöllun Lestarklefans um Brunagadd.

Að þessum fyrirlestri og öðrum þriðjudagsfyrirlestrum í vetur standa Listasafnið á Akureyri, VMA og Gilfélagið. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.